Atvinnulífið

 

Atvinnuástand á Suðurnesjum er gott í dag, en við munum tímana tvenna. Því megum við ekki verða værukær og slaka á því hlutirnir geta breyst hratt. Við þurfum að tryggja að íbúar okkar njóti góðs af nálægð við alþjóðaflugvöllinn. Við ætlum að efla ímynd svæðisins og laða að okkur fjölbreyttari atvinnurekstur, ekki síst sem veitir góð störf fyrir fólk með menntun.

Við getum gert það!

Sókn í hátækniiðnaði

 

B-listinn vill laða að fyrirtæki í hátækniiðnaði sem nýta sér vistvæna orku, nálægð við alþjóðaflugvöll og fyrsta flokks hafnaraðstöðu. Fyrirtæki í hátækniframleiðslu skapa raunveruleg hálaunastörf.

B-listinn vill skipa nefnd fagfólks sem vinnur að því að laða alþjóðleg fyrirtæki hingað og bæta þar með fleiri eggjum í atvinnukörfu svæðisins.

Reykjanesbær eigi sæti í stjórn Isavia

 

Ótrúlegur vöxtur í ferðaþjónustu og umsvifum á Keflavíkurflugvelli hefur gert það að verkum að Isavia er nú einn stærsti vinnustaður svæðisins. Efla þarf upplýsingaflæði og samráð við bæjarbúa varðandi þróun sem á sér stað á flugvellinum en starfsemi á Keflavíkurflugvelli hefur mikil áhrif á nærsamfélag vallarins.

Umhverfismál, samgöngumál, atvinnumál, félagsmál og skipulagsmál Reykjanesbæjar eru öll samofin þessari þróun. Því ætlar B-listinn að beita sér fyrir því að bæjarfélagið eigi ávallt einn stjórnarmann í stjórn Isavia til þess að gæta hagsmuna íbúa.

B-listinn mun einnig leita leiða til að auka samfélagsvitund stærstu atvinnurekenda á Keflavíkurflugvelli og fá þá í lið með okkur við að byggja upp nærsamfélag flugvallarins. Það er sameiginlegt hagsmunamál allra aðila.

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco), Isavia, Reykjanesbær, og sameinað Sveitarfélag Garðs og Sandgerðis koma að skipulagsmálum í kringum flugvöllinn og er ljóst að þar felast mikil sóknarfæri. Reykjanesbær á að leiða þá vinnu og gæta hagsmuna íbúa og umhverfis við þá skipulagningu.

Samvinna við ríkisvaldið um málefni Reykjaneshafnar

 

Miklir sóknarmöguleikar felast í því að efla starfsemi Reykjaneshafnar fyrir vöruflutninga og hvers konar haftengda starfsemi.

Leita þarf leiða í samstarfi við ríkið til þess að tryggja rekstrargrundvöll hennar til framtíðar.

Skoða þarf möguleika þess að laða að skemmtiferðaskip til svæðisins með tilheyrandi þjónustu við ferðamenn.

Efling Markaðsstofu Suðurnesja og aukið samstarf

 

Markaðsstofa Suðurnesja er sameiginleg markaðsstofa fyrir sveitarfélög á Suðurnesjum og í þeirri samvinnu felast samlegðaráhrif.

B-listinn vill að Reykjanesbær taki aukinn þátt í rekstri Markaðsstofunnar og leiti einnig samstarfs við stærri fyrirtæki og stofnanir á svæðinu með það að markmiði að efla markaðs-, atvinnu- og kynningarmál til muna.

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This