Eftir að hafa verið í nánum tengslum við skólana okkar og viðstödd ótalmargar umræður um vinnuumhverfi kennara þá eru ákveðin lykilatriði sem ég tel verða að vera í forgrunni. Vinnuumhverfi, álag, stuðningur og laun bera þar hæst.

Hægt er að fara margar leiðir að því að bæta vinnuumhverfi kennara. T.d. með því að bjóða upp á sveigjanleika í vinnutíma þannig að hægt sé að vinna ákveðna undirbúningsvinnu hvar og hvenær sem er. Enginn afsláttur á vinnu er veittur með þessu heldur skapar þetta aðstæður til að vinna eins og hentar best hverju sinni. Með einfaldri lausn, eins og færanlegri vinnustöð líkt og fartölvu, er vel hægt að styðja við þetta fyrirkomulag.

Flestir grunnskólakennarar hafa fartölvur til afnota en ekki er hægt að segja það sama um leikskólakennara. Það ætti hins vegar að vera tiltölulega auðvelt að leysa. Haraldur Freyr, formaður Félags leikskólakennara, benti til dæmis á það í kosningaþættinum Kosningamálin X18 á RÚV þann 16. maí sl. að með því að búa leikskólakennurum umhverfi sem líkist meira umhverfi grunnskólakennara þá væri hægt að auka aðsókn í leikskólakennaranám. Með auknum sveigjanleika í skólastarfinu geta kennarar dreift álagi eftir hentugleika hverju sinni.

Þeir sem hafa kennslureynslu vita að álag hefur aukist gríðarlega síðustu árin. Skóli án aðgreiningar, fjölmennari nemendahópar, aukinn fjöldi tvítyngdra nemenda, stuðningur kennara við leiðbeinendur og nýtt námsmat eru þættir sem auka álag með beinum hætti. Stuðningur og samvinna við aðra fagaðila eins og þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, náms- og starfsráðgjafa, talmeinafræðinga, sálfræðinga og kennsluráðgjafa er mikilvægur til að minnka álag í starfi. Með því að veita snemmtæka íhlutun í þverfaglegum teymum er hægt að mæta þörfum nemenda strax og styðja um leið við foreldra og kennara á meðan beðið er eftir nánari aðkomu.

Kennarar hafa lengi þurft að berjast fyrir bættum kjörum og því að störf þeirra séu metin eins og störf annarra sérfræðinga. B-listinn í Reykjanesbæ setur kjör og vinnuumhverfi starfsfólks í leik- og grunnskólum bæjarins í forgang fyrir þessar bæjarstjórnarkosningar. Við viljum bjóða kennurum sóknarsamning til þess að halda því góða starfsfólki sem við höfum og fá fleiri kennara til starfa. Sóknarsamningurinn felur í sér eingreiðslu, yfir fjögurra ára tímabil, samtals 2 milljónir króna. Mæli ég með að kennarar kynni sér þann samning á vidgetum.is/soknarsamningurinn.

Ánægt starfsfólk sem finnur að því er treyst vinnur vel. Við trúum því að við getum gert það sem þarf til þess að styðja við leik- og grunnskólakennara í Reykjanesbæ.

X-B Við getum gert það!

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir,
kennsluráðgjafi, 3. sæti B-listans í Reykjanesbæ

Pin It on Pinterest

Share This