Bjarni Páll Tryggvason

Flugumferðarstjóri, aðstoðardeildarstjóri og ofurpabbi

Bjarni Páll Tryggvason

Bjarni Páll er borinn og barnfæddur Keflvíkingur og hefur átt lögheimili innan sama 5 km radíussins allt sitt líf. Hann dvaldi þó einnig mikið hjá ömmu sinni og afa í Njarðvík sem barn og þekkir því bæði hverfin vel. Bjarni tók alfarið fyrir að fara á leikskóla en varð að gefa eftir þegar kom að grunnskólanum og fór hefðbundnu hverfisleiðina sína sem lá frá Myllubakkanum upp í Holtaskóla og upp í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Bjarni æfði fótbolta með Keflavík, var virkur í leiklist og starfaði bæði með Leikfélagi Keflavíkur sem unglingur og með VOX Arena í FS. Hann hætti í tónlistarskólanum eftir eitt ár þegar kennarinn sagði honum að best væri að hann myndi ekki spila á tónleikum en vinahópurinn var mikið í hljómsveitum og tókst að sannfæra Bjarna um að hann væri góður rótari og umboðsmaður í staðinn.

Bjarni er kvæntur Særúnu Thelmu Jensdóttur, nemanda í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri (og ofurkonu, eins og hann segir) og eiga þau saman hvorki meira né minna en 5 börn; Bergrúnu, Sæþór, Svandísi, Brynhildi og Bergþór, á aldrinum 5-15 ára. Fjögur elstu stunda nám í Myllubakkaskóla, sá yngsti er á Tjarnarseli og eru þau öll virk í íþrótta- og tómstundastarfi. Ekki má gleyma hundinum Koli sem er áttundi fjölskyldumeðlimurinn.

Bjarni hefur starfað mikið að samfélagsmálum með ýmsum hætti. Hann fann líka sína hillu í Skátunum þar sem hann var mjög virkur frá 13 ára aldri og alveg þar til börnin komu til sögunnar. Skátastarfið veitti honum margvíslega dýrmæta reynslu en þar var hann m.a. Félagsforingi Heiðabúa um fimm ára skeið og þar í forsvari fyrir um 200 manna æskulýðsstarf. Bjarni tók þátt í miklu uppbyggingastarfi í félaginu, m.a. að koma á koppinn skátastarfi í Garðinum og Sandgerði auk þess að vinna að sameiningu Heiðabúa og Víkverja á sínum tíma. Hann tók einnig þátt í ýmsum verkefnum hjá Bandalagi íslenskra skáta á landsvísu. Bjarni hefur einnig verið formaður Roundtable 10, tekið þátt í barna og unglingastarfi Knattspyrnudeildar Keflavíkur sem og starfað í sóknarnefnd Keflavíkurkirkju.

Bjarni er aðstoðadeildarstjóri ATS flugvalla AIS og MET hjá Isavia, er lærður flugumferðarstjóri og hefur starfað tengt því frá því hann lauk námi 2001. Í starfinu stýrir hann daglegum rekstri ýmissa þátta sem tengjast flugleiðsögu á Íslandi, en deildin sér meðal annars um flugumferðarstjórn og flugupplýsingaþjónustu fyrir alla flugvelli landsins og starfa um 90 manns undir henni. Meðal þess sem starf Bjarna felur í sér er samræming vinnubragða með ritun og innleiðingu verklagsreglna, almennt starfsmannahald, umsjón með þjálfun og endurmenntun starfsfólks, samskipti við aðrar deildir, þjónustunotendur, verkefnastjórnun, samskipti við eftirlitsaðila og samskipti við birgja bæði hérlendis og erlendis.

Þau sveitarstjórnarmál sem Bjarni lætur sig hvað mest varða eru umhverfis- og skipulagsmál, menntamál og heilbrigðismál. Honum er mikið í mun að leiðrétta það ójafnvægi sem Suðurnesin búa við af hálfu ríkisins og að gæta hagsmuna svæðisins gagnvart stórum ytri aðilum sem hafa í dag mikil áhrif.

Það kemur ekki á óvart að fjölskyldan skipar stóran sess í lífi Bjarna og í hana fer mest af frítímanum. Hann finnur þó líka tíma fyrir stangveiði og er í SVFK auk tómstundastarfanna sem fyrr hafa verið nefnd. Hann fylgist vel með íþróttum og segir bæði fótbolta- og körfuboltaleiki hjá Keflavík fá blóðið í sér til að renna. Hann er með það sem hann kallar „heimilislagfæringablæti” sem kemur yfir hann í bylgjum og þá tekur hann sér verkfæri í hönd og smíðar og brallar ýmislegt. Bjarni er félagsvera mikil og hefur óendanlegan áhuga á mannlífinu, elskar að ferðast um landið, elda góðan mat og njóta tónlistar þó hann geti ekki spilað hana sjálfur þó lífið lægi við, og svo mætti lengi telja – eitt er víst að Bjarni lætur sér aldrei leiðast!

 

Hvað fékk Bjarna til að fara í framboð?

„Ég hef alltaf haft áhuga á því samfélagi sem ég hef alist upp í og búið í mest allt mitt líf. Í Reykjanesbæ er verið að gera mikið af góðum hlutum sem ég vil að verði viðhaldið og til að svo megi verða þá þarf að taka réttar og góðar ákvarðanir varðandi framtíð okkar samfélags. Mér hefur oft á tíðum fundist aðrir hagsmunir en hagsmunir okkar sem búa hér verið látnir ráða för. Mig langar til þess að leggja mín lóð á vogarskálarnar til að tryggja að hagsmunir okkar samfélags verði í fyrsta sæti á sama tíma og við tökum framtíðarákvarðanir á faglegum og ígrunduðum forsendum.

Stefnumörkun í ýmsum málum hefur frekar stjórnast af viðbrögðum en að framtíðarsýn samfélagsins sé látin ráða för. Ég sakna þess að til staðar sé skýr framtíðarsýn fyrir okkar samfélag. Hvar sjáum við okkur eftir 5 ár, 10 ár, 15 ár? Mér þykir mjög mikilvægt að sú sýn sé skýr og að sú sýn styðji við það að börnin mín og fjölskylda finni sig innan hennar.

Við treystum um of á að utanaðkomandi þættir/aðilar stjórni för í samfélaginu okkar í stað þess að leggja þessum aðilum línurnar um það hvernig haga skuli málum gagnvart okkar samfélagi. Hér nefni ég t.d. málefni Helguvíkur en ekki síður þróunina í kringum flugvöllinn og gildir þá einu hvort talað er um svæði sem Kadeco, Isavia eða Landhelgisgæslan eru með á sínu forræði.

Ég vil tala svæðið okkar upp. Ég vil marka þá stefnu að hér sér eftirsóknarvert að reka fyrirtæki. Ég vil að Reykjanesbær stuðli að því að þau fyrirtæki sem byggja allan sinn rekstur og afkomu á tilvist flugvallarins sjái sér hag í því að standa af myndugleik á bak við samfélagið okkar. Ég vil gjarnan sjá að til verði vettvangur sem geri þeim kleift að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins umfram þá grundvallarhluti að veita fólki störf. Mér finnst að stuðningur þessara fyrirtækja við samfélagsleg verkefni, íþrótta- og tómstundafélag, menningarviðburði og þess háttar ætti að vera mun öflugri.

Svo hef ég það á tilfinningunni að við getum gert mun betur í okkar samfélagi í málum á borð við umhverfis- og skipulagsmál. Þar kunna að vera ýmsar vannýttar auðlindir og við þurfum að kanna til hlítar hvernig við getum virkjað betur okkur til framdráttar.”

 

Af hverju ætti fólk að kjósa þig?

„Ég tel mig hafa góða tilfinningu fyrir því hvar samfélagið okkar er statt og ég mun hafa hagsmuni okkar, sem byggjum þennan frábæra bæ, að leiðarljósi við ákvarðanatöku.”

 

Af hverju ætti fólk að kjósa xB í bæjarstjórnarkosningunum 26. maí?

„xB býður upp á skýra sýn og stefnu sem ég tengi við. Ég treysti fólkinu sem er á listanum til að viðhalda því góða sem hefur verið gert, bæta það sem má bæta og vinna að því af heilum hug að búa til samfélag þar sem allir íbúar geta verið sjálfstæðir, virkir og ábyrgir.”

 

Stiklað á stóru í ferlinum

Starfsferill

Aðstoðardeildarstjóri ATS flugvalla, AIS og MET hjá Isavia, 2015-

Aðstoðardeildarstjóri BIKF hjá Isavia, 2010-2015

Þjálfunarstjóri, 2007-2010

Flugumferðarstjóri BIKF, 2001-2007

Ýmis störf á veitingahúsinu Glóðinni, 1997-2000

Menntun

Diplóma í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Endurmenntun Háskóla Íslands, 2009

Framhaldsnám í flugumferðarstjórn, 2002

Flugumferðarstjórn, 2001

Stúdentspróf frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja, 1999

Greinar eftir Bjarna Pál

Selskógur w790
Eftirfarandi grein birtist á vf.is 18. maí 2018 Það er sumarið 1995, dögunum er eytt við gróðursetningar. Það er jú átak í gangi og unglingar…

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This