Díana Hilmarsdóttir

Forstöðumaður Bjargarinnar, geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja, vinnuþjarkur og mannvinur

Díana Hilmarsdóttir
Díana er fædd á Skaganum, bjó fyrstu 9 árin í Ólafsvík á Snæfellsnesi og eyddi restinni af grunnskólaárunum í Garðabæ. Hún gekk í Kvennaskólann í Reykjavík en skellti sér svo til Bandaríkjanna í ár sem au pair. Díana bjó í höfuðborginni þegar hún kynntist manninum sínum, þau fluttu saman til Keflavíkur árið 2000. Díana er gift Önundi Jónassyni, véltæknifræðingi og Keflvíkingi og á þrjú börn, fædd 1997, 2003 og 2005. Yngri börnin ganga bæði í Heiðarskóla.

Díana er forstöðumaður Bjargarinnar, geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja. Þau hjónin skelltu sér í nám í Danmörku 2005-2009 þar sem Díana hóf nám í félagsráðgjöf og lauk því svo hér heima og er með BA gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Díana er að ljúka námi í vor í fjármálum og rekstri frá endurmenntun HÍ.

Díana brennur fyrir velferðarmálum og þá sérstaklega geðheilbrigðismálum og vill þar sjá bætta þjónustu og auknar forvarnir. Hún vill einnig sjá gagngera endurskoðun á rekstri HSS og aðkomu heimamanna að starfseminni. Málefni aldraðra skipta Díönu miklu máli, fjölgun hjúkrunarrýma og að hjón geti verið saman út ævikvöldið þrátt fyrir mismunandi heilsufar.

Hún vill líka sjá sem best haldið utan um aðlögun íbúa af erlendum uppruna svo að þeir komist vel og örugglega inn í samfélagið. Önnur mál sem henni eru mikilvæg eru tvöföldun þess sem eftir er af Reykjanesbrautinni, umbætur á götum bæjarins, fegrun Hafnargötunnar og síðast en ekki síst er hún á móti mengandi stóriðju í Helguvík.

Díana hefur endurvakið þverfaglegt teymi fagaðila í velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Með því að hafa sameiginlegan vettvang til umræðna geta þessir aðilar sinnt skjólstæðingum sínum betur. Meðal þeirra sem að teyminu koma eru félagsþjónusturnar á svæðinu, félagsleg heimaþjónusta, Björgin, geðteymi og fleiri deildir innan HSS.

Ásamt aðila frá Rauða krossinum er Díana að skoða að koma á laggirnar þjónustu hér suðurfrá sambærilegri við Frú Ragnheiði, sem starfrækt er í Reykjavík. Frú Ragnheiður er verkefni sem hefur skaðaminnkun að leiðarljósi og nær til jaðarhópa í samfélaginu eins og heimilislausra og vímuefnaneytenda. Ungu fólki í harðri neyslu fer því miður fjölgandi á Suðurnesjum en meðal þess sem Frú Ragnheiður gerir er að veita heilbrigðisráðgjöf, nálaskiptaþjónustu og skaðaminnkandi ráðgjöf um öruggari leiðir í sprautunotkun og smitleiðir á HIV og lifrarblógu.

Díana er þessi klassíski dugnaðarforkur og alltaf að. Sá litli frítími sem gefst fer í að lesa góðar bækur, ræktina og sund en fyrst og fremst í að njóta tíma með fjölskyldunni heima fyrir. Hún segir hana og yngsta soninn vera “þáttafríkur” og njóta þess að horfa á góðar sjónvarpsseríur saman. Grill í góðra vina hópi að sumri er líka í miklu uppáhaldi.

Hvað fékk Díönu til að fara í framboð?

„Ég hef alltaf talið mig ópólitíska en áttaði mig svo á því að ég er mjög pólitísk, með skoðanir á hinu og þessu og sérstaklega velferðarmálum. Ég hef alltaf talið að mitt álit skipti ekki máli og að ég geti ekki haft áhrif á eitt eða neitt enda bara ein manneskja og hver hlustar… veit ekki hvað nákvæmlega hvað gerðist en ég áttaði mig einn daginn: “af hverju ekki ég frekar en einhver annar?” Ég er með reynslu og þekkingu á velferðarmálum og hef unnið í þeim málaflokki síðan 2010.

Ég vil búa í Reykjanesbæ og ég vil að börnin mín vilji búa í Reykjanesbæ í framtíðinni.  Ég tel mig geta lagt helling á vogarskálarnar í að gera bæinn okkar að betri bæ og stað sem fólk sækir í að búa á.”

Af hverju ætti fólk að kjósa þig?

„Því ég er æði 🙂 Ég er dugleg og brenn fyrir því sem ég geri. Ég er baráttumanneskja og ég er þrjósk en líka diplómatísk og réttsýn. Ég er ekki mikið fyrir rifrildi og leðjuslagi, ég vil að fólk og ólíkir hópar geti unnið saman með hagsmuni bæjarins að leiðarljósi. Ég er ný í pólitík og tel það mikinn kost þar sem ég er ómörkuð, ef svo má að orði komast. Mér þykir vænt um bæinn minn og ég vil taka þátt í að byggja hann upp og gera hann blómlegan og tel mig hafa þá þekkingu og reynslu sem þarf til þess.

Af hverju ætti fólk að kjósa xB í bæjarstjórnarkosningunum 26. maí?

„Því við erum trú okkur, fylgjum hjartanu og vinnum af heilindum. Við erum raunsæ og lofum ekki upp í ermina á okkur. Við komum til dyranna eins og við erum klædd.“

Stiklað á stóru í ferlinum

Starfsferill

Forstöðumaður í Björginni, geðræktarmiðstöð Stuðurnesja 2016-

Liðveisla og fjárhaldsmaður fyrir einstaklinga, skipuð af Sýslumanninum á Suðurnesjum, 2015-

Ráðgjafi hjá Björginni, 2014-2016

Ráðgjafi hjá Félagsþjónustunni í Sandgerði, Garði og Vogum, 2010-2014

Verkefnastjóri í verkefni fyrir börn með ADHD og hegðunarvanda, 2010-2011

Vann á hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Danmörku, fyrst í fullu starfi og síðar samhliða námi

Varamanneskja í stjórn Verslunarmannafélags Suðurnesja, 2003-2004

Ráðgjafi hjá Tryggingamiðstöðinni, 2000-2005

Menntun

Fjármál og rekstur hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, 2018

Meðferðarmenntun, PMTO hjá Barnaverndarstofu, 2013

BA í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands, 2011

Nám í félagsráðgjöf við University College í Árósum, 2007-2009

Ferðamálafræði við Menntaskólann í Kópavogi, 1998-1999

Greinar eftir Díönu

gedheilbrigdi
Eftirfarandi grein birtist í styttra formi á vf.is 24. maí 2018 Forvarnir og snemmtæk íhlutun hafa margsannað gildi sitt hvort sem það snertir börn, unglinga…
raunhæf loforð
Greinin birtist fyrst á vf.is 17. maí 2018 Þegar við heyrum orðið velferð hvað kemur upp í hugann? Velferð er ansi vítt hugtak sem margt…
ungbarnaleikskóli
Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum 17. maí 2018   Reykjanesbær er ört stækkandi sveitarfélag og mikilvægt að hér sé þjónusta í takt við það besta…

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This