Eldri borgarar

Við getum gert bæinn betri fyrir eldri borgarana

Öll eigum við skilið að geta notið lífsins þegar við hættum að vinna. Það kallar á góða búsetukosti, öfluga heilbrigðisþjónustu, eflingu heilsunnar og ekki síst skemmtilegt félagslíf. Okkur er einnig annt um fólkið okkar og viljum tryggja að börnin okkar og barnabörn hafi það sem best í Reykjanesbæ.

Við getum gert það!

Kynntu þér þau mál sem B-listinn hefur sett fram og varða eldri borgara sérstaklega:

Heilsugæsla Reykjaness: fullnægjandi heilsugæsla í heimabyggð

Sjáðu líka meira hér um velferðar- og heilbrigðismál.

Stækkun Nesvalla

Fyrir liggur að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum því er nauðsynlegt að byggja við Nesvelli til þess að koma til móts við aukna þörf fyrir dvalarrými fyrir aldraða. Mikilvægt er að öldruð hjón geti búið saman þó svo umönnunarþarfir þeirra séu ólíkar á hverjum tíma.

Rannsóknir varðandi lífaldur kvenna á Reykjanesi

Það er áhyggjuefni að lífaldur kvenna á Reykjanesi skuli vera marktækt styttri en annars staðar á landinu. B-listinn vill að ástæður þessarar útkomu séu kannaðar af fagaðilum á vegum heilbrigðsyfirvalda. Brýnt er að rannsaka hvaða ástæður búa að baki svo hægt sé að bregðast við með aðgerðum.

Skipa lýðheilsunefnd Reykjanesbæjar og festa heilsueflingu eldri borgara í sessi

Reykjanesbær er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélag. Markmið verkefnisins er að heilsa og líðan einstaklinga sé í fyrirrúmi í stefnumótun á öllum sviðum bæjarins. Stöðug áhersla er lögð á að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi sem og draga úr tíðni og afleiðingum lífstílstengdra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi.

Áætlað er að 70-80% af kostnaði til heilbrigðismála í Evrópu megi rekja til langvinnra lífstílstengdra sjúkdóma. Þróa og staðfæra þarf svokallað lýðheilsumat til þess að meta hugsanleg bein og óbein áhrif tiltekinna stjórnvaldsaðgerða á lýðheilsu.

Hugsa þarf almenningssamgöngur, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, félagslega þjónustu, forvarnir, öryggi, aðbúnað eldri borgara, skólasamfélagið, æskulýðs- og íþróttastarf auk hönnunar og skipulags útfrá þessum forsendum.

Hamingjustuðull íbúa á Suðurnesjum hefur mælst hár í lýðheilsuvísum Embættis landlæknis á meðan virkur ferðamáti til og frá vinnu eða skóla fullorðinna er helmingi lægri en á landsvísu. Streita fullorðinna á svæðinu mælist yfir meðaltali og fleiri íbúar meta líkamlega og andlega heilsu sína verri hér en annar staðar á landinu. Við þessu þarf að bregðast með því að móta og innleiða lýðheilsustefnu fyrir Reykjanesbæ og aðgerðaráætlun í kjölfar hennar.

Tryggja þarf stuðning og fjármagn og efla samvinnu sveitarfélaga á Suðurnesjum á þessu sviði. Fjölga þarf heilsueflandi skólum og festa í sessi heilsueflingu eldri borgara en þátttaka þeirra í rannsóknarverkefni Dr. Janusar Guðlaugssonar hefur gefið góða raun.

Reykjanesbær á að hafa frumkvæði að því að ráðinn verði lýðheilsufræðingur á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem styður við heilsueflandi samfélög á Suðurnesjum. Með ráðningunni má samþætta verkefni, nýta sérþekkingu og efla áherslu á lýðheilsu á svæðinu í heild.

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This