Eva Stefánsdóttir

Viðskiptafræðingur, félagsvera og umhverfissinni

Eva Stefánsdóttir

Eva er fædd og uppalin í Njarðvíkinni og gekk í Njarðvíkurskóla og Fjölbrautarskóla Suðurnesja auk þess sem hún var í ár sem skiptinemi í Minnesota í Bandaríkjunum. Eva æfði körfu með Njarðvík á yngri árum (og stalst reyndar yfir til Keflavíkur eitt tímabil) áður en hún þurfti að hætta vegna meiðsla. Hún er gift Örvari Þór Sigurðssyni, vefhönnuði hjá Kosmos og Kaos og saman eiga þau tvö börn sem ganga í Holtaskóla og æfa bæði fótbolta og körfubolta með Keflavík.

Eva er viðskiptafræðingur með BSc frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfar í dag sem viðskiptastjóri hjá innkaupadeild ITS þar sem hún hefur umsjón með viðgerðaferli og rekstri varahluta fyrir flugvélar Icelandair. Hún hefur einnig starfað við fjármálaráðgjöf og lauk nýlega markþjálfunarnámi hjá Profectus. Í þessum störfum hafa þjónusta og samskipti skipt höfuðmáli auk þess sem þau hafa krafist nákvæmni og skipulags í vinnubrögðum. Auk þess hefur Eva kennt fjármálafræðslu í grunnskólum á Suðurnesjum og í Fjölbrautarskóla Suðurnesja í samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja.

Eva er mikil félagsvera og hefur verið virk í ýmsu félagsstarfi í gegnum árin, sat m.a. í kvennaráði hjá körfuboltanum í Njarðvík og var um tíma gjaldkeri í stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur. Hún hefur líka ósjaldan verið í skemmtinefndum á vinnustöðum sínum.

Fjölskyldumálin eru Evu hugleiknust og hún hefur mikið barist fyrir því að fjölga fjölskylduvænum útivistarsvæðum í bænum. Jöfn réttindi barna eru einnig áherslumál hjá henni og hún vill finna leiðir til að auðvelda fjölskyldum að gera börnum kleift að stunda íþróttir og telur núverandi hvatagreiðslur ekki nóg til að leysa þau mál.

Eva hefur gaman af því að ferðast á nýja áfangastaði og í dag er París í miklu uppáhaldi. Hún reynir að stunda líkamsrækt og hefur fundið sig þar í Súperform og segir félagsskapinn frábæran. Hún fylgist líka vel með körfunni og þvælist með börnin á fótbolta- og körfuboltamót enda nóg að gera hjá virkum krökkum.

 

Hvað fékk Evu til að fara í framboð?

„Ég hef ekki verið mikið fyrir pólítík og að koma sjálfri mér á framfæri þannig að þetta er mikil breyting fyrir mig. Að mínu mati er ekki nóg að röfla yfir þeim hlutum sem þú ert óánægður með í samfélaginu heldur verður þú að leggja þitt af mörkum til að breyta þeim. Það er aðalástæðan fyrir því að ég ákvað að gefa kost á mér.”

 

Af hverju ætti fólk að kjósa xB í bæjarstjórnarkosningunum 26. maí?

„Fólk ætti að kjósa xB ef það vill sjá breytingar. Ef við höldum sama fólkinu þá fáum við sömu niðurstöður.”

 

Stiklað á stóru í ferlinum

Starfsferill

Viðskiptastjóri hjá Innkaupadeild ITS, 2017-

Fjármálaráðgjafi hjá Landsbankanum, 2011-2017

Kennsla í fjármálafræðslu við grunnskóla á Suðurnesjum og Fjölbrautarskóla Suðurnesja, 2015-2016

Viðskiptaþjónusta, verðbréfamiðlun og innri endurskoðun hjá Sparisjóðnum í Keflavík, 2005-2010

Menntun

ACC vottun í markþjálfun og NLP frá Profectus, 2016

Vottun í fjármálaráðgjöf frá Samtökum fjármálafyrirtækja, 2012

BSc í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík, 2005

Stúdentspróf úr Fjölbrautarskóla Suðurnesja, 2001

Greinar eftir Evu

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This