Ferðaþjónusta

 
Við getum öll verið sammála um að þegar kemur að ferðaþjónustu þá fær Reykjanesbær allt of lítinn bita af kökunni. Við viljum sjá stóreflingu ferðaþjónustu á Reykjanesinu öllu en ekki síst tryggja hagsmuni Reykjanesbæjar í þessum málaflokki.

Við getum gert það!

Ráðning ferðamálastjóra Reykjanesbæjar – ferðamálaráð SSS faglega skipað

 

B-listinn telur tímabært að ráða ferðamálastjóra til starfa hjá sveitarfélaginu.

Ferðaþjónusta er orðinn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og þó svo Reykjanesbær sé staðsettur við hlið alþjóðaflugvallar þar sem yfir 95% allra ferðamanna koma inn í landið hefur aðeins lítið brot þeirra viðkomu í bæjarfélaginu.

Gistinætur á Suðurnesjum eru afar fáar sem hlutfall á landsvísu. Aðeins eru færri gistinætur fyrir sumarið á Vestfjörðum og á hálendinu og því ljóst að mikið verk er að vinna. Þar að auki hafa þjónustufyrirtæki í ferðaþjónustu flest öll sína starfsemi á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Reykjanesbær hefur upp á margt að bjóða og margir áhugaverðir staðir eru á Reykjanesi sem vert er að nýta enn frekar. Aukið samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum þarf til þess að móta skýra framtíðarsýn í málaflokknum.

Á þeim grundvelli setur B-listinn fram hugmynd um faglega skipað ferðamálaráð Suðurnesja sem hefur það að markmiði að efla ferðaþjónustu á Suðurnesjum og marka stefnu til framtíðar.

Gistináttagjald nýtt til markaðsetningar á sviði ferðaþjónustu

 

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að stefnt sé að því að gistináttagjald renni til sveitarfélaga.

B-listinn vonast til þess að sú breyting taki gildi sem fyrst og vill að tekjur af gistináttagjaldi fari til uppbyggingar á sviði ferðaþjónustu hér í bæ.

Stefnumótun í ferðaþjónustu til framtíðar

 

B-listinn ætlar að setja af stað vinnu við að móta framtíðarstefnu í ferðamálum.

Fá sveitarfélög þurfa eins mikið á því að halda að hafa skýra framtíðarsýn í málaflokknum.

Uppbygging ferðamannastaða á Reykjanesi – efling Reykjanes Geopark

 

Reykjanesið er spennandi ferðamannastaður. Brú á milli heimsálfa, Reykjanesviti, Gunnuhver og fleiri áhugaverðir staðir kalla á þjónustu, skipulag og samstarf á því svæði.

Mikilvægt er að þjónustumiðstöð rísi á Reykjanesi auk þess sem hugað verði að byggingu hótela og annarar afþreyingar. Aukinn fjöldi ferðamanna heimsækir Reykjanesið ár hvert og líklegt að sú fjölgun sé komin til að vera.

Reykjanes Geopark hefur því miður ekki fengið verðskuldaðan stuðning frá ríkinu líkt og Katla Geopark, Vatnajökulsþjóðgarður og fleiri sambærileg verkefni.

Reykjanesbær á að taka forystu hvað varðar öfluga markaðssetningu á Reykjanes Geopark og fjölga enn frekar þeim ferðamönnum sem vilja kynna sér jarðfræði svæðisins, jarðhita og náttúru. Tækifæri Reykjanesbæjar til þess að markaðssetja sveitarfélagið undir merkjum UNESCO er ómetanlegt og á að nýta í markaðssetningu Reykjanesbæjar.

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This