Fólkið

Okkur langar að vinna fyrir þig og bæinn okkar.

Við bjóðum fram krafta okkar í þágu Reykjanesbæjar fyrir hönd xB í komandi sveitarstjórnarkosningum, 26. maí. Okkur fannst þess vegna ansi líklegt að þú vildir frá að vita eitthvað um okkur.

Kynntu þér frambjóðendurna hér fyrir neðan – og enn betra, komdu og hittu okkur á einhverjum af þeim fjölmörgu viðburðum sem fyrirhugaðir eru og kíktu við á kosningaskrifstofunni okkar að Hafnargötu 26, því okkur langar að kynnast þér!

Jóhann Friðrik Friðriksson

Jóhann Friðrik er oddviti listans, lýðheilsufræðingur og trommari. Það skiptir Jóhann miklu máli að fylgja eftir raunhæfum stefnumálum sem munu skila aukinni lífshamingju og velferð fyrir íbúa bæjarfélagsins.

Díana Hilmarsdóttir

Díana skipar annað sæti listans. Hún er forstöðumaður Bjargarinnar, geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja, vinnuþjarkur, mannvinur og gleðipinni. Hún vill leggja sitt á vogaskálarnar til að gera bæinn okkar að betri bæ sem fólk vill búa í til framtíðar

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir

Halldóra Fríða skipar þriðja sæti listans. Hún er kennsluráðgjafi, körfuboltamamma og Zumba dansari. Samtal og samvinna eru lykilatriði fyrir Halldóru og hún vill af öllu hjarta vinna að betra samfélagi fyrir okkur öll.

Trausti Arngrímsson

Trausti skipar fjórða sætið. Hann er viðskiptafræðingur, veiðimaður og crossfittari. Það eru fullt af tækifærum beint fyrir framan nefið á okkur hér í Reykjanesbæ og Trausti vill hjálpa bænum að grípa þau.

Bjarni Páll Tryggvason

Bjarni Páll er í fimmta sætinu. Hann er flugumferðarstjóri, aðstoðadeildarstjóri og ofurpabbi. Hann vill leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að tryggja að hagsmunir samfélagsins okkar verði í fyrsta sæti og að við tökum framtíðarákvarðanir á faglegum og ígrunduðum forsendum.

Eva Stefánsdóttir

Eva er í sjötta sætinu. Hún er viðskiptafræðingur, félagsvera og umhverfissinni. Ef við höldum sama fólkinu þá fáum við sömu niðurstöður og Eva vill sjá ýmsar breytingar í samfélaginu okkar.

Sigurður Guðjónsson

Sigurður er í sjöunda sæti. Hann er sölufulltrúi, stuðbolti og dellukall. Sigurður vill taka þátt í að bæta samfélagið okkar og vill sjá öðruvísi pólitík en stunduð hefur verið í Reykjanesbæ hingað til.

Halldór Ármannsson

Halldór Ármannsson

Framkvæmdastjóri og útgerðarmaður

Halldór fæddur á Hólmavík og uppalinn á Ströndunum en fluttist til Sandgerðis ásamt foreldrum sínum 8 ára. Kláraði þar gagnfræðaskóla og fór svo í Fjölbrautarskóla Suðurnesja, kláraði annað stig í vélstjórn og tók síðar sveinspróf í pípulögnum. Hann kynntist eiginkonu sinni, Ásdísi Erlu Jónsdóttur, lyfjatækni, í Sandgerði og þau hafa verið saman í 35 ár, en fluttu í Reykjanesbæ fyrir 30 árum rétt áður en frumburðurinn fæddist. Halldór og Ásdís búa nú í Innri Njarðvík og eiga þrjú börn og tvö barnabörn.

Lungann úr starfsferlinum hefur Halldór verið sjómaður en vann einnig við pípulagnir í 12 ár. Síðan 1996 hefur hann verið smábátaeigandi og rekið eigin útgerð með eiginkonu sinni og foreldrum sínum. Sjómennskan og skipstjórnin krefjast ákveðni og áræðni við að taka erfiðar ákvarðanir auk þess sem það hefur kennt honum að glíma við náttúruöflin og umgangast þau af virðingu.

Halldór hefur unnið að félagsstörfum tengt sjávarútvegnum. Var formaður smábátafélagsins Reykjanes í 7 ár og tók svo við formennsku í Landsambandi smábátaeigenda í 3 ár, eða til ársins 2016. Þau störf hafa veitt honum góða innsýn í embættismannakerfið.

Þeir málaflokkar sem Halldór brennur helst fyrir eru atvinnumál sem tengjast ferðaþjónustu og sjávarútvegi, vegna nálægðar okkar við flugvallarsvæðið. „Við þurfum að gera mikið betur í þeim málum og ná til okkar ferðamönnum.” Einnig vill Halldór sjá stórátak í iðnmenntun á Suðurnesjum.

Í frítímanum nýtur Halldór útiveru, og hálendisferðir og vetrarsport heilla. Líkamsræktin á sinn stað og hann stundar einnig golf með góðum félögum. Síðast en ekki síst eru samverustundir með fjölskyldunni honum dýrmætar.

Sanngirni og réttlæti eru ástæðan fyrir því að Halldór bauð sig fram, en honum finnst stundum vanta talsvert upp á heiðarleika þeirra sem bjóða sig fram til starfa sem þessa. Hann vill að þeir sem kjörnir eru vinni saman fyrir þá sem kusu þá, en séu ekki í framapoti til að koma ár sinni sem best fyrir borð. Eins og Halldór segir, „xB er fyrir fólkið!”

Magnea Björnsdóttir

Magnea Björnsdóttir

Leikskólakennari og frístundabóndi

Magnea er fædd og uppalin í Sauðhaga austur á Fljótsdalshéraði og er sannkölluð sveitastelpa. Hún flutti til höfuðborgarinnar 1981 en stóðst þó ekki Keflavíkurtöfrana þegar hún hitti Sigmar Björnsson, nú eiginmann hennar, í gegnum vinafólk. Magnea fluttist til Sigmars í Keflavík árið 1997 og hafa þau allt tíð síðan búið í Garðahverfinu. Sigmar starfar við húsasmíði og saman eiga þau Magnea 3 uppkomin börn.

Magnea menntaði sig sem leikskólakennari og hefur starfað sem slíkur í nær 37 ár, fyrst í Reykjavík en hér í Reykjanesbæ síðastliðin 20 ár. Hún hefur áralanga reynslu af skólastarfi og hefur mikið verið með elstu börnin á leikskólunum, auk þess sem sem hún hefur sinnt sérkennslu og kennt börnum af erlendum uppruna íslensku. Það kemur því ekki á óvart að menntamálin skipta Magneu miklu máli auk heilbrigðismálanna.

Í frítímanum sinnir hún kindunum sínum og hestunum, ferðast mikið um landið og er mikið fyrir útilegur.

Magnea segir xB bjóða nýjar áherslur og betri yfirsýn í bæjarstjórnarmálunum. Þar sé dugnaður, gleði og jákvæðni í fyrirrúmi, á listanum sé frambærilegt fólk sem talar skýrt, veit hvað það vill og er fylgið sér.

Jóhanna María Kristinsdóttir

Jóhanna María Kristinsdóttir

Flugöryggisvörður og óperusöngkona

Jóhanna María er fædd og uppalin í Keflavík og býr þar enn, sótti Myllubakkaskóla og síðar Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Hún hefur stundað tónlistarnám frá því hún var ung að árum og lært á hin ýmsu hljóðfæri en frá árinu 2004 hefur hún einbeitt sér að söngnum. Hún lauk B.Mus námi með söng sem aðalfag frá Listaháskóla Íslands sl. janúar og stefnir á frekara söngnám erlendis. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Jóhanna áður búið erlendis en hún bjó með fjölskyldunni sinni í Kanada í 2 ár sem unglingur og var svo au pair í Bandaríkjunum í eitt ár.

Söngurinn á hug Jóhönnu allan en hún hefur einnig starfað sem flugöryggisvörður á Keflavíkurflugvelli meira og minna frá árinu 2010. Tónlist og allt sem henni tengist er aðal áhugamálið en Jóhanna hefur líka gaman af því að ferðast bæði innanlands og utan auk þess sem hún nýtur þess að prjóna og lesa. Fræðslu- og félagsmál eru þeir málaflokkar sem Jóhanna brennur helst fyrir.

Jóhanna ákvað að taka þátt í framboði xB þar sem henni þykir vænt um bæjarfélagið sitt og vil fá tækifæri til að hafa áhrif á það. Hún telur jákvæðni, málefnalega umræðu og traustvekjandi frambjóðendur mikilvægast af því sem Framsókn hefur fram að færa fyrir bæinn okkar.

Andri Fannar Freysson

Andri Fannar Freysson

Tölvunarfræðingur og knattspyrnupeyji

Andri eyddi fyrstu 7 árunum í Keflavík en flutti svo í Njarðvíkina og stundaði nám í Njarðvíkurskóla. Hann byrjaði 4 ára að æfa fótbolta og stuttu seinna körfu og æfði hvorutveggja til 17 ára aldurs. Sótti Fjölbrautarskóla Suðurnesja og þurfti á þeim tíma að velja á milli fótboltans og körfunnar og eftir mikið sálarstríð varð fótboltinn ofaná. Hann hefur spilað bæði með Keflavík og Njarðvík og leggur mikla áherslu á að hann vill það besta fyrir bæði félög. Eftir að hafa þreifað aðeins fyrir sér eftir stúdentinn skellti Andri sér í BSc nám í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og hefur starfað sem forritari hjá LS Retail frá því hann útskrifaðist.

Andri er í sambúð með Söru Dögg Margeirsdóttur og þau búa í Ytri Njarðvík. Sara stundar íþróttafræðinám við Háskólann á Akureyri og saman eiga þau von á sínu fyrsta barni í sumar.

Íþrótta- og tómstundamálin eru Andra ofarlega í huga, enda hefur hann verið mikið í þeim málum. Einnig hefur hann áhuga á menntamálum og fékk innsýn í þau mál áður en hann hóf háskólanám þegar hann prófaði bæði að vinna í leikskóla og skóla. „Ég veit hversu frábært starf er unnið innan skólanna og leikskólanna þrátt fyrir það sem að mínu mati eru ósanngjörn kaup og kjör.” Einnig vill hann sjá upplýsingatækni í skólum bætta og vill laða fleiri tæknifyrirtæki til Suðurnesjanna.

Andri spilar fótbolta með Njarðvík, sem tekur mikið af hans frítíma, en hann er líka að eigin sögn „ágætis nörd” og nýtir forritunina oft til að búa til eitthvað nýtt í tölvunni heima. Hann nýtur þess að vera með fjölskyldunni eða í góðra vina hópi og spjalla um lífið og tilveruna.

Áhuginn á stjórnmálum kviknaði þegar hann nýtti tímann við tölvuna til að hlusta á viðtöl við stjórnmálamenn. Hann hefur styrkst enn meira eftir að hann vissi að hann væri að verða faðir og þá fannst honum tími til kominn að bjóða sig fram til að geta mögulega haft áhrif á framtíð hins nýja fjölskyldumeðlims.

Andri segir fólk eiga að kjósa xB vegna þess að þau muna ekki setja neitt fram nema að vel ígrunduðu og rökstuddu máli og að vita hvernig hægt sé að framkvæma hlutina. Á listanum er einnig metnaðarfullt og jákvætt fólk með fjölbreyttan bakgrunn og gleðina að leiðarljósi.

Aðalheiður Halldórsdóttir

Aðalheiður Halldórsdóttir

Grunnskólakennari og göngugarpur

Aðalheiður er Kópavogsmær sem elti ástina til Reykjanesbæjar. Hún býr á Ásbrú, með sambýlismanni sínum Einari Óskari Friðfinnssyni, vélfræðingi og þau eiga saman tvö ung börn.

Aðalheiður er með B.Ed frá Kennaraháskóla Íslands og starfar sem sérkennari í táknmálsveri Holtaskóla.

Hún hefur gaman af útiveru, fjallgöngum, útliegum og göngutúrum með hundinn sinn, Ronju. Henni finnst líka gaman að spila, fara í sund og að njóta samvista með fjölskyldunni, ekki síst uppi í sumarbústað.

Guðmundur Stefán Gunnarsson

Guðmundur Stefán Gunnarsson

Ráðgjafi á velferðarsviði og júdókappi

Guðmundur er grænn í gegn, ekki bara sem Framsóknarmaður heldur borinn og barnfæddur Njarðvíkingur. Hann er giftur Eydísi Mary Jónsdóttur, umhverfis- auðlinda- og landfræðingi, frumkvöðli og framkvæmdastjóra sprotafyrirtækisins Zeto ehf. Saman eiga Gummi og Eydís fjóra drengi, tvo í Akurskóla og tvo á leikskólanum Holti, en fjölskyldan býr í Innri Njarðvík.

Gummi hefur unnið mikið uppbyggingarstarf í júdókennslu barna í Reykjanesbæ og er þjálfari bæði í júdó og öðrum sjálfsvarnaríþróttum. Hann er íþróttafræðingur að mennt, með kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskóla, og hefur starfað mikið með krökkum bæði innan grunnskólanna og í íþróttastarfi. Í dag starfar Gummi sem ráðgjafi á Velferðarsviði Reykjanesbæjar þar sem hann veitir ráðgjöf varðandi þjónustu og athafnir daglegs lífs.

Það kemur ekki á óvart að íþrótta- og tómstundamál standa hjarta Gumma næst. Hann vill vinna að því að bæta íþrótta- og tómstundastarf í bænum og gera það aðgengilegt öllum. Það var einmitt það sem varð til þess að hann ákvað að taka sæti á listanum.

Aðspurður af hverju fólk ætti að kjósa xB segir Gummi að það sé vegna þess að xB muni bæta bæjarfélagið með nýrri hugsun til framtíðar. Það sem einkenni listann séu fagleg vinnubrögð og gegnsæi, auk þess sem fólk sé að horfa til framtíðar en ekki bara til næstu kosninga.

Drífa Sigfúsdóttir

Drífa Sigfúsdóttir

Viðskiptafræðingur og Zumba dansari

Drífa er fædd og uppalin í Keflavík en á ættir að rekja vestur á firði. Þegar hún var 16 kynntist hún sætum Njarðvíkingi, Óskari Karlssyni, og þau eignuðust sitt fyrsta barn tveimur árum síðar. Þau byggðu hús Garðahverfinu, fluttu í það þegar þau voru 24 ára og búa þar enn. Drífa og Óskar eiga tvo drengi, eina stúlku og 5 barnabörn.

Drífa er enginn aukvisi þegar kemur að samfélags- og stjórnmálum. Hún var m.a. formaður Neytendasamtakanna, formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, var í samninganefnd vegna byggingar við sjúkrahúsið, í byggingarnefnd D-álmu, sat í stjórn Sparisjóðsins, stjórn Brunamálastofnunar, formaður fagráðs Brunamálaskólans og var fulltrúi í íslensku sendinefndinni á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Drífa sat í 12 ár sem aðalmaður í bæjarstjórn, auk eins kjörtímabils sem varamaður. Á þeim 12 árum sem hún starfaði í bæjarstjórn var hún í 8 ár forseti bæjarstjórnar og varabæjarstjóri. Það er því ekki amalegt fyrir frambjóðendur Framsóknar að geta leitað í hennar viskubrunn.

Þegar Drífa hætti í bæjarmálunum árið 1998 skellti hún sér í háskóla og lauk BSc í viðskiptafræði og meistaranámi í mannauðsstjórnun. Síðan þá hefur hún unnið sem deildarstjóri fyrirtækjasviðs CreditInfo, forstjóri HSS og sem rekstrarstjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Drífa sat einnig í stjórn Arion banka eftir hrun.

Málefni fólks á besta aldri eru henni hugleikin enda kjarnorkukona á besta aldri hér á ferð. Í frítímanum nýtur hún þess að lesa, eyða tíma með barnabörnunum, dansa Zumba, hjóla, njóta tónlistar, matreiðslu og ferðalaga.

Það er Drífu mikilvægt að styðja við þá frábæru frambjóðendur sem sitja á B listanum. Þar sé traust og öflugt fólk á ferð, með skýra sýn á bæjarmálin og þau komi til með að standa við það sem þau segja.

Róbert J. Guðmundsson

Róbert J. Guðmundsson

Málarameistari og kajakræðari

Róbert er fæddur og uppalinn í Keflavík en býr í dag í Ytri Njarðvík. Hann er giftur Ólöfu Rafnsdóttur, leiðbeinanda í Njarðvíkurskóla, og saman eiga þau 2 drengi. Þeir sækja báðir Fjölbrautarskóla Suðurnesja og sá eldri útskrifast núna í vor. Róbert æfði fótbolta með „Ungó” hjá UMFK og svo með yngri flokkum ÍBK.

Róbert er málarameistari og hefur rekið Málningarþjónustu JRJ síðan 2004 með tveimur öðrum. Í frítímanum stundar hann stangveiði, kajakróður og fylgist vel með enska boltanum.

Róbert hefur mikinn áhuga á umhverfismálum. Hann ákvað að taka sæti á lista þar sem hann hefur áhuga á uppbyggingu hverfa sveitarfélagsins. Honum er umhugað að bærinn líti sem best út og að íbúum líði sem best í sátt og samlyndi við umhverfi sitt.

Róbert segir fólk eiga að kjósa xB0 því að flokkurinn hafi framtíðarsýn sem þau ætli að standa við og að þarna sé fólk sem hægt sé að treysta.

Andrea Ásgrímsdóttir

Andrea Ásgrímsdóttir

Viðskiptafræðingur og PGA golfkennari

Andrea hefur stoppað víða við í gegnum tíðina, bjó m.a. á Seyðisfirði, Egilstöðum, í höfuðborginni, Mosó og Frakklandi í 8 ár, en er þó að mestu alin upp á Akureyri. Hún hitti sætan njarðvískan strák á balli í Súlnasal, flutti til Reykjanesbæjar 2016 og unir sér hér vel.

Andrea er í sambúð með Jóni Halldóri Sigurðssyni – sem hún hitti í Súlnasal 😉 –  rannsóknarlögreglumanni, en hann er einmitt formaður kosninganefndar Framsóknar. Jón Halldór á tvær dætur fyrir og Andrea á tvö börn sem sækja bæði Njarðvíkurskóla, en fjölskyldan býr í hjarta Ytri Njarðvíkur. Öll eru börnin virk í íþróttum auk þess að vera í tónlistarskólanum. Andrea leggur einnig mikla áherslu á að viðhalda frönskunni sem lærðist þegar þau voru þar.

Víðsýni er nokkuð sem Andrea hefur öðlast í gegnum að búa á hinum ýmsu stöðum bæði innanlands sem utan, auk þekkingar á hinum ýmsu bæjarfélögum. Hún býr einnig yfir fjölbreyttri starfsreynslu og vinnur í dag í hótelteymi Bláa Lónsins þar sem hún er mikið í samskiptum við fólk, aðallega erlenda gesti áður en þeir koma til landsins. Hún er líka PGA golfkennari og hefur unnið ýmis störf tengd golfinu í gegnum tíðina, m.a. hjá PGA og Golfsambandi Íslands  Andrea er með BSc í mannauðsstjórnun frá Háskólanum á Akureyri og MS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.

Það skiptir Andreu mestu máli að börnin hennar fái að njóta sín sem best og því leggur hún mikla áherslu á menntamál, íþrótta- og tómstundamál. Hún vill líka sjá samgöngumál í betri farvegi, ekki síst það sem snýr að Reykjanesbrautinni. Andrea vill líka sjá fjölbreyttari atvinnutækifæri á staðnum enda fann hún fyrir því að erfitt var að vinna starf sem hæfði menntun hennar þegar hún flutti suður eftir.

Frítímanum eyðir Andrea mestmegnis með börnunum, en spilar jú golf og finnst gaman að fara á fjöll. Þau Jón Halldór eru líka að gera upp hús sem fer mikill tími í þessa dagana.

Andrea hefur aldrei verið flokksbundin en hitti fullt af frambærilegu og góðu fólki í xB í gegnum sambýlismann sinn og ákvað í kjölfarið að taka þátt og vera með á listanum. Hún sér þetta sem tækifæri til að kynnast fólki á svæðinu og að hafa áhrif á það samfélag sem hún og börnin hennar búa í.

Hólmfríður Guðmundsdóttir

Hólmfríður Guðmundsdóttir

Hússtjórnarkennari og lestraramma

Hólmfríður er Eyfirðingur og að eigin sögn alin upp í sveit með kúm og kindum. Kennaranámið stundaði hún í Reykjavík og útskrifaðist með réttindi til grunn- og framhaldsskólakennslu. Þegar þar var komið sögu hafði hún kynnst manninum sínum, Jóni Eggertssyni netagerðamanni og flutti suður með sjó til hans árið 1970. Hóf að kenna við Gagnfræðaskólann og kenndi þar alla sína starfsævi í gegnum ýmsar breytingar, s.s. þegar bænum var skipt upp í skólahverfi og gaggó varð Holtaskóli. Hólmfríður býr enn í Keflavík og eiga þau hjónin þrjá uppkomna syni og 5 barnabörn.

Í dag er Hólmfríður komin á eftirlaun, hlúir að fjölskyldunni, sjálfri sér, sinnir ýmsum félagsstörfum, vinaböndum og er lestraramma í Holtaskóla þar sem hún hittir stundum gamla vinnufélaga. Hún hefur einnig tekið þátt í svokölluðu Janusarverkefni, sem er lýðheilsuverkefni fyrir eldri borgara og er mjög ánægð með það framtak og vill sjá framhald verða á. Skólinn á öllum stigum er þessum kennara hjartans mál, en einnig vill hún sjá breytingar í heilbrigðismálum enda er biðtími eftir læknaþjónustu á heilsugæslunni ekki eðlilegur.

Þegar hún er spurð af hverju hún hafi ákveðið að taka sæti á listanum segir hún kankvís: „Það kom einhver púki í mig, kannski get ég lagt eitthvað til málanna” og að hún hafi alltaf tröllatrú á blöndun ólíks fólks, hún sé vön að vera innan um ungt fólk og þyki vænt um það. Hún segir Framsókn alltaf hafa verið samvinnuflokk, hún treysti þessu lífsglaða unga fólki til að vinna með hjartanu, það hafi mikinn metnað til að gera vel og vinna samfélaginu til framdráttar.

Freyr Sverrisson

Freyr Sverrisson

Knattspyrnuþjálfari og töframaður

Freyr er innfæddur Keflvíkingur og „vel blandaður Njarðvíkingur” sem gerir hann að góðum Reykjanesbæing – að eigin sögn. Hann er giftur Þórdísi Björgu Ingólfsdóttur, grunnskólakennara, og saman eiga þau þrjú börn og er yngsti sonurinn að ljúka grunnskólanámi í Njarðvíkurskóla.

Freyr er knattspyrnuþjálfari, þjálfar um 200 drengi, skipuleggur æfingar og undirbýr leiki. Hann er með UEFA A þjálfara gráðu og var landsliðsþjálfari í 15 ár. Það kemur því ekki á óvart að íþróttir eru hans helsta áhugamál og allt það sem viðkemur að íþróttum bæjarins stendur hjarta hans næst.

Freyr ákvað að taka sæti á listanum til að láta gott af sér leiða en segir líka: „þar sem aðeins 2% af heiminum eru rauðhærðir gefst fólki einstakt tækifæri með því að kjósa okkur”. Hann segir gaman, virðingu, traust og samheldni einkenna xB og að fólk ætti veita flokknum atkvæði sitt því að þar sé traustur leiðtogi sem hafi fullt af hæfileikaríku fólki með sér sem geti gert bæinn okkar betri.

Ólafía Guðrún Lóa Bragadóttir

Ólafía Guðrún Lóa Bragadóttir

Tollvörður og hestakona

Lóa er fædd og uppalin í Keflavík, býr þar enn í dag og á 2 uppkomna syni og 6 barnabörn. Hún vann á bæjarskrifstofunum í 13 ár, sem hefur eflaust átt sinn þátt í því að hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á bæjarmálunum. Lóa hefur einnig starfað sem snyrtifræðingur, sjúkraliði og starfar í dag sem tollvörður.

Í frítímanum nýtur hún tíma með fjölskyldunni og stundar einnig hestamennsku, íþróttir og útivist. Íþróttir og heilbrigðismál eru þau mál sem Lóa lætur sig helst varða.

Lóa ákvað að taka sæti á B listanum til að sýna stuðning sinn nýtt og ferskt fólk sem vill breytingar og hefur metnað.

Oddný J. B. Mattadóttir

Oddný J. B. Mattadóttir

Leiðsögumaður og markþjálfi

Oddný er fædd og uppalin í Keflavík og ólst upp á Austurgötunni rétt við gömlu sundlaugina, þar sem hún var oft á dag. Hún kláraði gagnfræðaskólann og vann ýmis störf eftir það, svo sem verslunarstörf, var í Tollinum nokkur sumur, hjá hernum og í ferðaþjónustu. Oddný er gift Stefáni Ö. Kristjánssyni, býr enn í Keflavík og á 3 uppkomin börn, 9 barnabörn og 4 langömmubörn.

Oddný þurfti að hætta að vinna 55 ára vegna veikinda og fara á örorku, sem var henni mjög þungbært. En hún var sko ekki af baki dottinn, og svo lærir sem lifir á sannarlega við hana, en Oddný skellti sér aftur í nám og kláraði stúdentspróf 57 ára. Tók einnig nokkur fög við sagnfræðideild Háskóla Íslands. Hún er einnig lærður leiðsögumaður og markþjálfi og er dugleg að sækja hin ýmsu námskeið, m.a. Hjá Dale Carnegie, spænskunámskeið og myndlistarnámskeið, og hefur mikinn áhuga á jurtum og á matreiðslu heildræns matar. Hún er einnig öflug í félagsstörfum, var m.a. einn af stofnendum Bjarkar, félags Framsóknarkvenna á sínum tíma, var formaður Ferðanefndar eldri borgara og er í Eldey, kór eldri borgara. Oddný er einnig lestraramma í Holtaskóla.

Eins og fróðleiksþorstinn og fjölbreytt reynsla gefur til kynna lætur Oddný allt sem viðkemur manneskjunni sig varða. Hún hefur setið í ýmsum nefndum, s.s. Barnaverndarnefnd, öldrunarnefnd og í þjónustuhópi aldraðra. Hún hefur alla tíð haft áhuga á að láta gott af sér leiða. Þess vegna ákvað Oddný að taka sæti á listanum og styðja við það trausta og góða fólk sem hann leiðir.

Ingvi Þór Hákonarson

Ingvi Þór Hákonarson

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og formaður Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur

Ingvi Þór er fæddur í Kef City, gekk í Myllubakkann og svo Holtaskóla. Tók íþróttirnar með trompi og æfði fótbolta, körfubolta og handbolta! Í dag býr hann í Njarðvík, er giftur Eyrúnu Jönu Sigurðardóttur, fjármálastjóra Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og þau eiga fjögur börn, Arnór Inga 19 ára nemanda við Fjölbrautarskóla Suðurnesja, Hildi Rún 11 ára nemanda við Njarðvíkurskóla, Heklu Sif 11 ára nemanda við Njarðvíkurskóla og Helenu Rós 5 ára nemandi á leikskólanum Gimli.

Íþrótta- og tómstundamál eru Ingva ofarlega í huga, enda formaður Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur og stundar einnig golf og fótbolta af kappi.

Í starfi sínu sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður vinnur hann mikið með einstaklingum sem glíma við heilsubresti. Hann þekkir því vel inn á heilbrigðismálin. Starfið er fjölbreytt og enginn dagur eins. Ingvi hefur lokið atvinnunámi í slökkviliðsfræðum frá Mannvirkjastofnun og tók nám í sjúkraflutningum frá Sjúkraflutningaskólanum á Akureyri og ýmis námskeið tengd starfinu.

Aðspurður af hverju hann tók sæti á lista segir hann einfaldlega „ég geri allt fyrir flokkinn minn. Framsóknarflokkurinn er tilbúinn að vinna fyrir bæjarbúa af fullum heilindum og ber hag þeirra fyrir brjósti. Við erum jákvæð og málefnaleg og það er einfaldlega skemmtilegt í Framsókn.”

Kristinn Þór Jakobsson

Kristinn Þór Jakobsson

Viðskiptafræðingur og bæjarfulltrúi

Kristinn er fæddur og uppalinn á Vatnsnesveginum í Keflavík og tilheyrir genginu sem kennt er við hann. Hann gekk í Barnaskólann við Skólaveg, þar sem Fjölskyldusetur Reykjanesbæjar er nú til húsa og svo í Myllubakkaskóla og Gaggó. Skellti sér svo vestur á firði í nám við Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði áður en hann fór í matreiðslunám í Hótel og veitingaskólanum. Eftir að hafa starfað í veitingageiranum vatt hann sínu kvæði í kross, skellti sér í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og svo í Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur 2001 og og svo aftur með MS í stjórnun og stefnumótun árið 2012.

Kristinn er giftur Ólöfu Kristínu Sveinsdóttur, verslunarstjóri hjá Rammagerðinni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og saman eiga þau þrjú uppkomin börn, meðal annars Jóhönnu Maríu sem skipar 10. sæti listans. Í frítímanum stundar hann golf, gönguferðir og ferðalög.

Eftir að hafa starfað fyrir Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum um árabil tók Kristinn nýlega við starfi rekstrarstjóra lagers, eldhúss og matsala Landspítala Háskólasjúkrahúss. Hann hefur einnig, eins og margir vita, verið bæjarfulltrúi hjá Reykjanesbæ sl. 8 ár. Það er því einnig dýrmætt fyrir nýja frambjóðendur að geta leitað í hans reynslubrunn þegar kemur að bæjarstjórnarmálunum en Kristinn tók einmitt þetta sæti á listanum til að standa við bakið á því nýja fólki sem leiðir B listann í dag.

Jafnrétti og lýðræði eru Kristni hjartans mál og hann segir samvinnu alltaf hafa verið leiðarljós Framsóknarflokksins. Hann segir gleði og traust einkenna framboðið og leggur áherslu á að xB horfi til framtíðar.

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This