Eftirfarandi grein birtist í styttra formi á vf.is 24. maí 2018

Forvarnir og snemmtæk íhlutun hafa margsannað gildi sitt hvort sem það snertir börn, unglinga eða fullorðna. Snemmtæk íhlutun felst í því að grípa inn í hlutina áður en vandinn er orðinn alvarlegri en ella og að veita þjónustu við hæfi eins fljótt og hægt er.

Það hefur sýnt sig að snemmtæk íhlutun getur borið mjög góðan árangur. Þar sem börn og unglingar hafa fengið þann stuðning og þá þjónustu sem þau hafa þarfnast nógu snemma bætir það daglega líðan þeirra og þau verða virkari í samfélaginu þegar þau vaxa úr grasi.

Ef grunur leikur á að barn sé með einhverja röskun er mikilvægt að þjónusta sé í boði sem allra fyrst. Það á við hvort sem um ræðir í leikskóla, skóla eða heimafyrir. Brýnt er að nánasta fjölskylda fái einnig stuðning og upplýsingar um hvernig best sé að styðja við barnið/unglinginn. Börn eða unglingar í vanda verða einfaldlega að fá stuðning og bakland frá skóla, heimili, heilbrigðisþjónustu og velferðarþjónustu og það er lykilatriði að samstarf þar á milli sé gott.

Kristín Inga Grímsdóttir geðhjúkrunarfræðingur gerir þessum málum mjög góð skil í grein sinni „Geðheilbrigði barna og unglinga”. Rannsóknir benda til þess að mörg börn segi ekki frá sinni vanlíðan og rannsóknarniðurstöður benda til þess að tæplega þriðjungur þeirra barna sem á meðferð þurfa að halda fái ekki viðeigandi meðferð. Þetta er allt of hátt hlutfall og algerlega óviðunandi. Ef börn og ungmenni fá ekki viðeigandi aðstoð geta einkennin versnað og orðið að greinanlegum sjúkdómi. Meðal ástæðna sem nefndar hafa verið fyrir því að börn fái ekki viðeigandi meðferð eru fordómar og almennt þekkingarleysi gagnvart einkennum og úrræðum geðraskana.

Gott dæmi um eflingu á geðheilbrigði barna er Fjölskylduteymi Langholts- og Vogahverfis sem er samvinnuhópur heilsugæslunnar í Glæsibæ, þjónustumiðstöðvar Háaleitis og Laugardals, og Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL). Teymið vinnur að því að auka og samræma þjónustu við börn með vanlíðan og geðrænan vanda. Það eykur líkur á að fyrr sé gripið inn í hjá barni sem þarf á hjálp að halda. Auk þess er með þessu sú þekking og þjónusta sem fagaðilarnir geta boðið upp á innan sinna stofnana samrýmd, og um leið er unnið heildrænt að vanda barnanna.

Mikilvægt er að auka þekkingu barna og foreldra á ýmis konar geðröskunum svo að þau geti leitað sér aðstoðar fyrr, ef þau verða vör við einkennin. Leggja þarf áherslu á að finna þau börn eða unglinga sem þurfa á hjálp að halda og hafa þarf gott aðgengi að úrræðum og þjónustu fyrir börn með vanlíðan eða geðröskun. Skólahjúkrunarfræðingar gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að efla geðheilbrigði barna þar sem þeir eru í nánum samskiptum við nemendur og starfsfólk skólanna. Þeir búa yfir faglegri þekkingu á geðheilbrigðismálum og það er hlutverk þeirra að tengja saman skóla og heilbrigðiskerfið. Samvinna á milli kerfa er þarna stór og mikilvægur þáttur.

Í starfi mínu innan velferðarþjónustunnar í gegnum árin hef ég hitt marga fullorðna einstaklinga sem glíma við geðraskanir af ýmsum toga og oftar en ekki fíknivanda. Stór hluti þessara einstaklinga upplifði vanlíðan og ónógan stuðning í barnæsku og á unglingsárum. Áberandi samnefnarar eru einelti, félagsleg óvirkni, t.d. í tómstundastarfi, og slakur námsárangur. Stór hluti þeirra prófaði áfengi og vímuefni strax í grunnskóla og urðu snemma virkir neytendur. Skólaganga varð ekki nein eftir grunnskóla eða einungis stutt stopp í framhaldsskóla. Stutt atvinnusaga, fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu, atvinnuleysisbætur, endurhæfingarlífeyrir eða örorkubætur eru endurtekin þemu. Nánast undantekningarlaust nefnir fólk kvíða og þunglyndi ásamt lélegri sjálfsmynd og sjálfsmati.

Af rannsóknum og reynslu sést að aldrei er hægt að leggja of mikla áherslu á mikilvægi forvarna og snemmtækrar íhlutunar þegar kemur að geðheilbrigði. Burt séð frá upplifun þessara einstaklinga og þeirra sem að þeim standa, þá er þetta samfélaginu dýrkeypt. Bæði í beinhörðum peningum sem fara í þjónustu og tap sem verður vegna þess að þessir einstaklingar eru ekki virkir þjóðfélagsþegnar, en einnig í öðrum kostnaði, sem er að mínu mati mun meiri: vanlíðaninni sem þetta veldur þeim sem lenda í þessari stöðu og aðstandenda þeirra og þau áhrif sem það hefur á samfélagið okkar í heild.

B-listinn setur geðheilbrigðismálin á oddinn. Reykjanesbær þarf að gera enn betur. Skv. rannsóknum fer líðan barna í skólum bæjarins versnandi og við því þarf að bregðast.

Við hjá B-listanum viljum áframhaldandi samvinnu við alla skólastjórnendur, kennara og foreldra. Við viljum halda áfram samningi Fjölbrautaskóla Suðurnesja við fræðslusvið Reykjanesbæjar um að veita nemendum sálfræðiþjónustu þeim að kostnaðarlausu og auka við ef þörf er á. Við viljum samvinnu við stjórnvöld til þess að efla geðheilbrigðismál á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, bæði forvarnar- og meðferðarteymi barna (FMTB) sem og geðteymi fullorðinna.

Mikilvægt er að styrkja samvinnu velferðarkerfis, skólakerfis og heilbrigðiskerfis og nýta það besta á hverjum stað. Þannig getum við verið sem best í stakk búin til að styðja við börnin okkar, unglingana og fjölskyldur þeirra, og uppskera þannig betri líðan og heilbrigðari einstaklinga til framtíðar.

Við getum gert það – saman

Díana Hilmarsdóttir er forstöðumaður Bjargarinnar, geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja og skipar annað sætið á lista Framsóknarflokksins

Pin It on Pinterest

Share This