Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir

Kennsluráðgjafi og körfuboltamamma

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir

Halldóra Fríða er fædd og uppalin í Reykjavík og gekk í Hólabrekkuskóla. Hún var bara 16 ára þegar hún hitti sætan strák úr Keflavík í gegnum vinkonur sínar þar og rétt fyrir aldamótin keyptu þau sína fyrstu íbúð á Heiðarbóli. Hann heitir Friðrik Gunnarsson, fæddur og uppalinn í Keflavík  og starfar í dag sem bílasali hjá Heklu í Reykjanesbæ. Þau eru gift og eiga þrjár dætur; Ernu Dís 16 ára, Elísu Helgu 13 ára og Eydísi Sól 6 ára sem ganga allar í Holtaskóla þar sem þau búa í dag í Keflavíkinni.

Halldóra er lærður grunnskólakennari með framhaldsmenntun í sérkennslu blindra- og sjónskertra frá University of Birmingham. Hún starfar sem kennsluráðgjafi á Fræðslusviði Reykjanesbæjar þar sem hún heldur utan um kennslu nemenda með íslensku sem annað mál í leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar, Garðs og í Grunnskólanum í Sandgerði. Hún er tengiliður við tvo grunnskóla og einn leikskóla og situr í nemendaverndarráðum þessara skóla. Sem kennsluráðgjafi sinnir hún m.a. viðveru, ráðgjöf, skimunum og greiningum.

 

Starfið gefur Halldóru ómetanlega innsýn í menntamálin á svæðinu þar sem hún er í mjög góðu sambandi við skólana og starfsfólkið þar og því svo sannarlega með puttann á púlsinum. Starfið felur einnig í sér ýmis verkefni önnur, bæði innlend og erlend. Meðal annarra er þróunarverkefni í samstarfi með Hafnarfirði og Árborg sem snýr að nemendum með íslensku sem annað mál. Þessi innsýn og reynsla mun reynast Halldóru ómetanleg í störfum hennar innan bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Það kemur ekki á óvart að með þennan bakgrunn brennur Halldóra fyrir mennta- og fjölmenningarmálum. Einnig eru velferðarmál henni ofarlega í huga, ekki síst vegna þess að hún hefur unnið mikið með fjölskyldum barna með ýmsar fatlanir. Íþrótta- og tómstundamál eru henni einnig kær.

Í frítímanum ferðast Halldóra með fjölskyldunni bæði innanlands og utan, nýtur þess að eiga gæðatíma með vinum, stundar hreyfingu af öllum toga eins og Zumba í Sporthúsinu. Hún fylgist svo að sjálfsögðu vel með körfubolta enda eru stelpurnar hennar allar að æfa.

 

Hvað fékk Halldóru til að fara í framboð?

„Ég hef sjálf kosið á marga vegu. Ég reyni eins og ég get að máta mig og líf fjölskyldunnar við áherslur flokkanna sem bjóða fram í hvert skipti og kýs það sem passar best við hugsanir mínar. Ég hef búið hér það lengi og verið í störfum sem gefa mikla innsýn í ýmis málefni sveitarfélagsins að ég tel mig geta lagt ýmislegt til málanna. Ég tel mjög jákvætt að geta haft áhrif á stefnu sveitarfélagsins sem ég bý í. Þegar leitað var til mín, og ég heyrði að Jóhann Friðrik myndi leiða listann, þá íhugaði ég stöðuna vandlega og ákvað að nú væri tíminn kominn til að taka að sér krefjandi verkefni og hafa áhrif.”

 

Af hverju ætti fólk að kjósa þig?

„Ég vil af öllu hjarta vinna að betra samfélagi fyrir okkur öll. Ég hef engra persónulegra hagsmuna að gæta fyrir utan að vera íbúi sveitarfélagsins. Ég á auðvelt með að setja þarfir annarra framar mínum eigin. Ég er skipulögð og á auðvelt með að hrinda verkefnum í framkvæmd. Ég er mannleg og legg mig fram við að setja mig í spor annarra, kryfja málin til mergjar og finna leiðir til að komast að lokamarkmiðinu. Samtal og samvinna eru lykilorð. Ég get haft áhrif á að hrinda hugmyndum í framkvæmd.”

 

Af hverju ætti fólk að kjósa xB í bæjarstjórnarkosningunum 26. maí?

„Af því þar er fólk sem ber velferð íbúanna í brjósti. Okkur er ekki sama!”

 

Stiklað á stóru í ferlinum

Starfsferill

Kennsluráðgjafi á Fræðslusviði Reykjanesbæjar, 2015-

Sérkennsluráðgjafi á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, 2009-2015

Umsjónarkennari í Holtaskóla, 2006-2009

Leiðbeinandi í Heiðarskóla, 2001-2003

 

Menntun

Framhaldsnám í sérkennslufræðum á meistarastigi – University of Birmingham, Mandatory qualification for teaching children with special needs; QTVI Qualified Teacher of the Visually Impaired, 2011

Kennaramenntun frá Háskólanum á Akureyri, 2007

Stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja, 2001

Greinar eftir Halldóru Fríðu

vinnuumhverfi kennara
Eftir að hafa verið í nánum tengslum við skólana okkar og viðstödd ótalmargar umræður um vinnuumhverfi kennara þá eru ákveðin lykilatriði sem ég tel verða…
Eftirfarandi grein eftir Halldóru Fríðu, sem skipar 3. sæti listans, birtist í Víkurfréttum fimmtudaginn 10. maí: Í ört stækkandi sveitarfélagi er mjög eðlilegt að ákveðnir…

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This