Það hefur ekki farið framhjá neinum að heilsugæslan á Suðurnesjum (HSS) er ekki að sinna hlutverki sínu. Úttekt embættis landlæknis á starfseminni leiddi í ljós dökka mynd sem ekki verður við unað. Þjónusta heimilislækna er takmörkuð en áherslan á hana hefur verið mikið keppikefli á höfuðborgarsvæðinu.


Reykjanesbær mun, ef fram heldur sem horfir, taka fram úr Akureyrarbæ sem fjórða stærsta sveitarfélag landsins. Aukin þörf fyrir grunnþjónustu fylgir í kjölfarið og er heilsugæslan þar engin undantekning.

Góð heilsugæsla einkennist fyrst og fremst af því að vera aðgengileg. Hún gerir samfellda þjónustu mögulega og á að geta fengist við breitt svið heilsufarslegra vandamála. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er grundvallarréttur hvers einstaklings en markmið með rekstri heilsugæslustöðva er að tryggja öllum landsmönnum fullnægjandi heilsugæslu í heimabyggð.

Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu og á stór hluti íbúa að geta fengið þar fullnægjandi og viðeigandi heilbrigðisþjónustu sé starfsemin í samræmi við kröfur nútímans.

Heilsugæslan tengist náið velferðarþjónustunni en skólahjúkrun, ungbarnavernd og heimahjúkrun heyra undir starfsemi HSS á meðan Reykjanesbær sinnir heimaþjónustu, forvörnum, þjónustu við fatlaða og dagdvöl fyrir aldraða svo eitthvað sé nefnt. Samkvæmt reglugerð skal heilsugæslan veita ráðgjöf og fræðslu um heilsuvernd og forvarnir og því má leiða líkum að því að veruleg samlegðaráhrif gætu náðst með sameiginlegum rekstri.

B-listinn vill skoða forsendur fyrir því að efla heilsugæsluna með því að bæjarfélagið taki yfir rekstur og stjórnun hennar með þjónustusamningi við velferðarráðuneytið.

Akureyrarbær sá um rekstur heilsugæslunnar á Akureyri frá árinu 1997 til 2012 og heyrði starfsemin þá undir velferðarsvið bæjarins. Því er ljóst að fordæmi eru fyrir sambærilegu rekstrarfyrirkomulagi og sýnir úttekt að slíkt fyrirkomulag dró úr þörf fyrir hjúkrunar-og dvalarrými og leiddi af sér ýmis velferðarverkefni s.s. heilsueflandi heimsóknir til aldraðra, fagráð um fjölskylduvernd og ráðgjöf og sérhæfða heimaþjónustu við fatlaða.

Náist hagstæðir samningar við ríkið gætu skapast forsendur fyrir heildstæðari þjónustu sem líkleg væri til þess að fækka innlögnum, efla tengsl heilsugæslunnar við samfélagið, auka þjónustustig og efla bæði geðheilbrigðisþjónustu og lýðheilsu íbúa svæðisins.

Heilsugæsla fyrir alla.


Við getum gert það!

 

Pin It on Pinterest

Share This