Senn er komið að því. Eftir 12 daga kjósa bæjarbúar sér nýja bæjarstjórn og henni er ætlað er að gæta hagsmuna þeirra næstu fjögur árin.

Ég hef fylgst með bæjarmálum í Reykjanesbæ í mörg ár og á þeim tíma hefur margt breyst. Hér áður fyrr voru bæjarfulltrúar mun virkari þátttakendur í bæjarlífinu, létu sig málin varða, hvort sem þeir voru hluti af meirihluta eða minnihluta, á hverjum tíma. Ég sakna þess að sjá ekki virkari þátttöku þeirra og finnst flestir hafa verið lítt sýnilegir undanfarin ár þó svo stór mál hafi sannarlega gefið ástæðu til virkrar þátttöku.

Mér er til dæmis minnistætt þegar allt var komið í óefni og haldinn var seinni íbúafundurinn varðandi Kísilverksmiðju United Sílíkon í Stapa. Á fundinn mættu engir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fáir bæjarfulltrúar yfir höfuð. Sjálfstæðismenn létu sér nægja að senda yfirlýsingu sem lesin var upp á fundinum – þeir höfðu þó fyrir því.

Hverjar eru hugmyndir fólks um þátttöku í stjórnmálum ef þetta er útkoman? Sem íbúi og fundarmaður á þeim fundi fannst mér fjarvera bæjarfulltrúa mjög miður.

Er það bara hipp og kúl að vera í bæjarstjórn þegar boðið er til kokteilboðs og að þess utan sitji menn heima?

Pin It on Pinterest

Share This