Íþrótta, æskulýðs- og forvarnamál

 
Reykjanesbær hefur alltaf verið öflugur íþróttabær en við getum gert enn betur.

Gildi íþrótta þegar kemur að forvörnum fyrir börn og unglinga er margsannað, auk þess sem öflugt íþróttastarf veitir öllum bæjarbúum innblástur til heilsueflingar og heilbrigðs lífsstíls.

B-listinn er skipaður öflugu fólki úr íþrótta- og æskulýðsstarfi bæjarins sem þekkir málaflokkinn út og inn enda höfum við frábærar hugmyndir fram að færa.

Saman getum við eflt enn frekar íþrótta-, æskulýðs og forvarnarmálin!

Íþróttamiðstöðin Ramminn – betri aðstaða, betri árangur

 

B-listinn vill skoða kosti þess að sameina íþrótta- og tómstundastarf sem nú á sér ekki framtíðarhúsnæði undir einu þaki í Rammahúsinu í Njarðvík.

Íþróttamiðstöðin Ramminn yrði vel staðsett á Fitjum, mitt á milli Njarðvíkur og innri Njarðvíkur en þar hefur íbúabyggð blásið út og mikil þörf er fyrir bætta þjónustu.

Tryggja verður samgöngur til og frá Rammanum en næg bílastæði eru við húsið auk þess sem samlegðaráhrif fást með samnýtingu starfsfólks og aðstöðu fyrir ýmsar greinar. Bardagaíþróttir, dans og fleiri greinar gætu nýtt aðstöðuna og hægt væri að stækka hana eftir þörfum.

Reykjanesbær er í sumum tilfellum að leigja húsnæði undir íþróttaiðkun af einkaaðilum. Gera þarf kostnaðar- og þarfagreiningu fyrir þær íþróttagreinar sem kæmu til með að nýta Rammann. Mikill kostnaður felst í því að gera Rammahúsið hæft til nýtingar en verkefnið væri langtímaverkefni.

Yfirbyggður gervigrasvöllur, sameiginlegt æfingasvæði og framtíðarskipulag

B-listinn vill að áfram verði unnið að skipulagningu að sameiginlegu æfingasvæði fyrir knattspyrnuiðkun UMFN og Keflavíkur og telur tímabært að huga að byggingu á yfirbyggðum gervigrasvelli við Reykjaneshöllina.

B-listinn vill skipa faglegan starfshóp sem í sitja fulltrúar íþróttafélagana auk sérfræðinga á sviði vallarhönnunar, viðhalds- og íþróttaskipulags.

Ljóst er að íþróttaaðstaða til körfuknattleiksiðkunar í íþróttahúsinu í Njarðvík er bágborin og leita þarf leiða í samstarfi við félagið til að finna framtíðarlausn fyrir aðstöðuna.

Reykjanesbær greiði fyrir stöðugildi hjá UMFN og Keflavík

Faglegur stuðningur við stóru íþróttafélögin í Reykjanesbæ er mikilvægur þáttur á sviði forvarna, íþrótta og lífsgæða.

Reykjanesbær á að horfa í auknu mæli á íþróttir sem forvarnarþátt þar sem tryggja þarf öllum börnum aðgang óháð efnahag.

Hluti af því er að efla enn frekar félögin með því að greiða eitt stöðugildi starfsmanns hjá hverju félagi og létta þar með fjárhagslegan róður félaganna.

Myndu félögin skuldbinda sig til að koma á móts við þau börn sem höllum fæti standa, félagslega eða fjárhagslega í okkar góða bæjarfélagi.

Íþrótta- og frístundaskóli Reykjanesbæjar – jöfn tækifæri til íþróttaiðkunar

Rannsóknir sýna að börn sem taka þátt í íþróttastarfi líður betur, eru heilsuhraustari og sýna betri námsárangur. Óformleg könnun, sem samráðshópur um heilsueflandi samfélag lagði fyrir, sýndi að þátttaka barna í íþróttastarfi Reykjanesbæjar er misjöfn eftir skólum eða um 66% að meðaltali. Börn sem búa á Ásbrú voru langt um ólíklegri til þess að stunda skipulagt íþróttastarf en um 45% þeirra tóku þátt í íþróttaiðkun.

Leiða má líkum að því að fjárhagur íbúa skipi stórann sess í því hvort börn stundi íþróttir. Lengi býr að fyrstu gerð og því mikilvægt að komið sé til móts við sem flesta svo hægt sé að tryggja það að öll börn fái sama tækifæri til þess að þroskast og dafna.

B-listinn leggur til að bæjarfélagið skoði möguleikana á stofnun Íþróttaskóla í samstarfi við íþróttafélögin þar sem öllum börnum á aldrinum 6 – 10 ára sé gefinn kostur á þátttöku undir handleiðslu íþróttakennara og þjálfara. Hægt væri að skoða rekstur hans í tengslum við Frístundaskóla.

Til fjármögnunar færu hvatagreiðslur auk þess sem sanngjarnt gjald væri fyrir hvert barn.

Markmiðið væri að veita börnum sömu tækifæri til íþróttaiðkunar, lækka kostnað heimila og auka hreyfiþroska og hreyfigetu barna.

Sé samstarfsgrundvöllur fyrir hendi um það að koma Íþróttaskóla Reykjanesbæjar á laggirnar tæki bæjarfélagið stórt skref í átt að bættri lýðheilsu barna. Samstarf við íþróttafélögin gæti dregið úr þjálfarakostnaði og minnkað álag á íþróttamannvirki á annatíma.

Börn vilja skemmtilega hreyfingu eftir skólatíma og íþróttskólinn gæti verið heildstætt úrræði sem allir njóta góðs af, náist samstaða um slíka leið.

Styrkja fjölbreyttari æskulýðsstarfsemi

B-listinn vill efla þátttöku barna í æskulýðsstarfi.

Hvatagreiðslur eiga að nýtast til hvers konar æskulýðsiðkunar.

Einnig þarf að gera sambærilega samninga við annað æskulýðsstarf og gert hefur verið með þjálfarastyrkjum íþróttafélaganna. Þannig gefst þeim sem vinna með börnum í æskulýðsstarfi kostur á því að sækja námskeið og efla færni á sínu sviði. Má þar nefna unglingastarf Björgunarsveitanna, Skátastarf, leiklist, kórastarf ofl.

Efla forvarnar fyrir unglinga sérstaklega

Mikið brottfall á sér stað úr íþróttum og æskulýðsstarfi á unglingsárum og margir unglingar hafa lagt skóna á hilluna fyrir 18 ára aldur.

Mikilvægt er að efla starfsemi 88 hússins í forvarnarskyni, veita sérstöku fjármagni til þess að sporna við brottfalli úr skipulögðu félagsstarfi og halda þeim góða árangri sem náðst hefur í Reykjanesbæ gagnvart áfengisneyslu ungmenna. Í þessum málaflokki þurfa allir að leggjast á eitt.

Bæjarfélagið og stofnanir bæjarins þurfa að efla sýnileika sinn á samfélagsmiðlum og mæta þörfum barna og unglinga með virðingu, stuðningi og þátttöku þeirra sjálfra í stefnumótum.

Efla þarf ungmennaráð Reykjanesbæjar sérstaklega. Starf ráðsins hefur gefið tóninn fyrir þann árangur sem næst þegar þeir sem eiga að njóta þjónustunnar fá hlutdeild í skipulagi og stefnumótun hennar.

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This