Menntamál

 
Það er klisja að segja “mennt er máttur” – en þannig er það og við getum öll verið sammála um það.

Í þessum málaflokki getum við og þurfum við að gera miklu betur. Við getum gert betur í að laða að og halda í gott fólk. Við getum líka gert mun betur þegar kemur að því að nýta skólagöngu barnanna okkar til raunverulegs og hagnýts undirbúnings fyrir lífið.

Við getum gert það!

Sóknarsamningur við kennara í Reykjanesbæ – mennt er máttur

Launamál kennara hafa verið í ólestri um langt skeið og nú blasir við kennaraskortur.

Reykjanesbær hefur náð góðum árangri í menntamálum og mjög mikilvægt að það góða starf festi sig í sessi. Í Reykjanesbæ starfa hæfir og áhugasamir kennarar, sú auðlind verður seint metin til fjár.

B-listinn vill gera sóknarsamning við alla kennara í Reykjanesbæ.

Sóknarsamningurinn felur í sér að leik- og grunnskólakennarar skrifa undir viljayfirlýsingu um að starfa hjá bæjarfélaginu við kennslu næstu 4 árin. Viljayfirlýsingin er fyrst og fremst táknræn en samvinna og traust á milli kennara, skólastjórnenda, foreldra og bæjarfélags er forsenda framfara á sviði menntunar. Reykjanesbær greiði öllum háskólamenntuðum kennurum í Reykjanesbæ sóknargreiðslu 500.000 kr í byrjun haustannar 2018 og árlega næstu 4 árin. Samningurinn tæki strax gildi og er óháður kjarasamningum.

Áætlaður kostnaður er um 150-200 milljónir á ári en heildarútgjöld til fræðslu og uppeldismála eru áætluð um 4 milljarðar króna árið 2018.

Bætt starfsumhverfi kennara – stuðningur við nýliðun

Góðir kennarar eru hornsteinn menntakerfisins. Tryggja þarf nýliðun og bæta starfsumhverfi kennara í samvinnu við stéttina m.a. með breytingum á viðveru og undirbúningstíma.

B-listinn vill leita leiða til þess að koma til móts við leiðbeinendur sem hyggja á kennaranám. Þetta yrði gert með styrkjum á námstímanum í formi launaflokkahækkunar og þeim gefist kostur á að sækja staðlotur á launum.

Brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla – uppbygging ungbarnaleikskóla

Mikilvægt er að fjölga dagvistunarúrræðum fyrir börn í Reykjanesbæ.

B-listinn vill stefna að uppbyggingu ungbarnaleikskóla í Reykjanesbæ á kjörtímabilinu.

Nauðsynlegt er að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistunar og tryggja að öll börn fái úrræði við hæfi við 18 mánaða aldur.

Sjá einnig hér.

Aukið samstarf grunn- og framhaldsskóla – aukin áhersla á iðnmenntun

Samstarf grunnskóla í Reykjanesbæ og Fjölbrautaskóla Suðurnesja hefur gengið vel.

B-listinn vill efla það samstarf enn frekar og leita leiða til þess að auka áhuga nemenda á iðnnámi í samstarfi við FS og fyrirtæki á svæðinu.

B-listinn styður uppbyggingu framhaldskólanáms í tölvuleikjagerð við Keili.

B-listinn vill efla starf Miðstöðvar Símenntunar á Suðurnesjum með því að þrýsta á að fjárframlög ríkisins til símenntunar á svæðinu séu aukin.

B-listinn vill að nemendur í háskólanámi hafi aðgang að aðstöðu og fjarfundarbúnaði til heimalærdóms við MSS, þeim að kostnaðarlausu.

Ný fög í grunnskólum – menntun í breyttum heimi

Fjölbreytt framboð námsgreina í efri bekkjum grunnskóla er til þess fallið að kynna nemendur fyrir ýmsum námsgreinum. B-listinn telur að ákveðin stöðnun sé til staðar í námsskrá grunnskólanna og ekki sé alltaf tekið mið af þörfum framtíðarinnar.

B-listinn vill bæta menntun í grunnskólum og tryggja að menntun barnanna okkar nýtist í breyttum heimi. Má þar nefna forritunarkennslu, fjármálalæsi, heilsulæsi, fræðslu um rekstur heimilis, bætta kynlífsfræðslu og fræðslu um jafnrétti kynjanna.

Börn hafa mismunandi bakland til þess að sinna heimanámi og því er æskilegast að öll börn sem þess óska fái aðstoð við heimanám eftir skólatíma og að heimanámi sé stillt í hóf.

Efla stuðning við börn og kennara vegna fjölgunar erlendra nemenda

Í Reykjanesbæ eru um 22% íbúa af erlendu bergi brotnir (skv. Hagstofunni).

B-listinn vill tryggja það að öll börn fái góða menntun óháð uppruna.

Efla þarf stuðning við kennara og nemendur í leik- og grunnskólum til þess að svo megi verða.

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This