Í dag er samkeppnin um tíma fólks mikil. Stjórnmálin hafa ekki farið varhluta af því rétt eins og önnur félagsmál. Margir kvarta yfir því að erfitt sé að manna stjórnir í félögum og virkja fólk til þátttöku.

Þó er það svo að átta framboð bjóða fram í komandi kosningum hér í bæ og því hlýtur áhuginn á bæjarstjórnarsæti að vera mikill. Í þessu ljósi vona ég að frambjóðendur séu mættir til leiks til þess að láta sín stefnumál og áherslur verða að veruleika.

Ég vonast líka til þess að þeir séu tilbúnir til þess að ræða erfið mál og flókin, og taka upplýstar ákvarðanir með hag bæjarbúa að leiðarljósi. Sé það ekki raunin, blasir við annað kjörtímabil af ósýnileika. Varla finnst bæjarbúum það boðlegt.

Ég tel að bæjarbúar ætlist til þess að bæjarstjórn taki afstöðu og ræði erfiðu málin þó svo allir séu ekki sammála. Út á það ganga nefnilega stjórnmálin.

Við á B-listanum eru mætt til leiks til þess að hafa áhrif. Við höfum sett saman öfluga stefnuskrá með greinargerðum um öll helstu stefnumál.

Okkur finnst að bæjarbúar eigi skilið að vita fyrir hvað við stöndum og hvers vegna við viljum þeirra atkvæði. Þeir eiga heimtingu á því að vita hvers vegna við viljum vera í bæjarstjórn og setja tíma okkar á kvöldin í að kynna okkur málin fyrir bæjarstjórnarfundi í stað þess að horfa á nýjustu þáttaröðina á Netflix.

Pin It on Pinterest

Share This