Okkar fólk var að sjálfsögðu mætt á fund hjá Öryrkjabandalag Íslands sem haldinn var í Reykjanesbæ í gær. Okkar kona, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir tók þar til máls og kynnti okkar stefnu í þeim málum. Þið getið séð hana taka til máls í live vídeóinu frá ÖBÍ hér fyrir neðan – hún hefur mál ca. á klukkutíma markinu og talar í ca. 3 mínútur. Það er svolítið erfitt að heyra, svo Halldóra skrifaði upp nokkra punkta hér af því sem fram kom í máli hennar sem þið getið séð hér fyrir neðan.

Einnig svaraði hún spurningu úr sal og lokaorðin hennar má svo heyra á ca. 2:05 eða þegar um 44 sekúndur eru eftir af vídeóinu.

Það er ekki amalegt að hafa krafta Halldóru í þessum málaflokki því hún hefur gríðarlega mikla reynslu og þekkingu á honum m.a. eftir að hafa unnið með fötluðum börnum auk þess sem hún er með meistaragráðu í sérkennslufræðum og QTVI gráðu í kennslu blindra og sjónskertra.

Hér má lesa punkta um það helsta sem fram kom í máli Halldóru:

Fundur Öryrkjabandalagsins í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 22. maí 2018

Áherslur okkar í Framsóknarflokknum, þegar kemur að málefnum einstaklinga með fatlanir, eru búsetuúrræði og þjónusta við hæfi. Ég sjálf hef áralanga reynslu af því að vinna með og fyrir einstaklinga með fatlanir og veit hvaða hindranir verða í vegi fólks.

Eins og Halldór Sigurður Guðmundsson, framkvæmdarstjóri öldrunarheimila á Akureyri, kom svo vel að orði þá má líkja þjónustu ríkis og sveitarfélaganna við bútasaumsteppi. Bútarnir eru allir mjög fínir og vel skipulagðir en þegar þeir eru saumaðir saman þá myndast svæði sem fólk fellur á milli. Margt hefur áunnist síðustu ár en það vantar stefnumörkun stjórnvalda í samfellu, ábyrgð og samvinnu þessara tveggja kerfa. Einstaklingar eiga ekki að þurfa að finna fyrir því á eigin skinni. Það þarf að fá fleira fagfólk til að tryggja sem besta þjónustu.

Við þurfum einnig að vera með fræðslu í skólum, á vinnustöðum og í samfélaginu öllu varðandi fatlanir til að byggja upp jákvæða orðræðu. Fordómar eru í flestum tilfellum þekkingarleysi og við viljum koma í veg fyrir fordóma.

Við viljum ennfremur nýta Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna sem gæðastjórnunartæki í stefnumótun.

Við viljum skara framúr og þiggja þann stuðning sem okkur er boðinn.

Við styðjum þá hugmynd að setja upp notendaráð þar sem sitja fulltrúar fatlaðra verði gert virkt í sveitarfélaginu. Til ráðsins er þá hægt að leita m.a. þegar teknar eru ákvarðanir um þjónustu.

Þeir einstaklingar með fatlanir, sem ég hef unnið, með leggja mikla áherslu á að í umræðunni og ákvarðanatökunni verði: „Ekkert um okkur – án okkar“ og er ég hjartanlega sammála því.

Við á B-listanum viljum mæta þörfum barna, fullorðinna og fjölskyldna. Við ætlum að hlusta, við heyrum og munum leita allra leiða til þess að koma málum í framkvæmd.

Áherslur xB varðandi búsetu

Við viljum tryggja búsetuúrræði og að einstaklingar hafi val þegar kemur að búsetumálum þeirra eða barna þeirra. Sumir vilja búa í eigin húsnæði, aðrir í sjálfstæðum búsetukjörnum og enn aðrir kjósa frekar að búa á sambýlum. Sumir foreldrar barna með fatlanir vilja búa þannig um að börn þeirra geti búið heima eftir 18 ára aldur og því þarf að reyna að koma til móts við þær óskir t.d. með breytingum á húsnæði m.t.t. aðgengismála.

Áherslur varðandi NPA

Sama og með búsetu, að einstaklingar hafi val. Einhverjir vilja frekar stýra fjármagninu sjálfir með beingreiðslusamningum þ.e. ráða fólk sjálft í vinnu. Aðrir kjósa að sveitarfélagið sjái um umsýsluna. Verður að meta í hverju tilfelli fyrir sig.

Atvinnumál

Við viljum leita leiða til þess að bjóða þeim sem vilja vinna vinnu. Þetta er samfélagslegt verkefni og þarf að skipuleggja í samstarfi við vinnuveitendur og vinnumálastofnun. Viljum geta boðið vinnu við hæfi og eftir áhuga hvort sem það er með stuðningi eða ekki. Nú eru um 50 manns í atvinnu með stuðningi og um 50 á bið. Þetta eru tölur fyrir Suðurnesin en leiða má líkur að því að stærsti hópurinn sé í Reykjanesbæ.

Skólamál

Við rekum hér skóla án aðgreiningar. Flestir leik- og grunnskólanemendur komast í sinn heimaskóla en svo hafa foreldrar val um að sækja um sérúrræði við grunnskólana eins og Eikina, Öspina, Björkina og Goðheima. Sérúrræðin eru mörg hver sprungin og færri komast að en þurfa og vilja. Hvert sem nemendur fara er tekið á móti öllum með einstaklingsmiðað nám í huga. Fjölbrautaskólinn hefur svo öfluga starfsbraut þar sem boðið er upp á einstaklingsmiðað hagnýtt nám. Við viljum halda áfram að styrkja og styðja við þau úrræði sem í boði eru og að standa vörð um það að allir hafi aðgengi að menntun.

Aðgengi

Við viljum halda áfram að stuðla að bættu aðgengi og fá ábendingar um það sem má bæta. Félagasamstök og þjónustumiðstöðvar bjóða upp á aðgengisúttektir

Ferðaþjónusta

Skoða með einstaklingum sem nýta þjónustuna hvað er gott og hvað má bæta.

 

Pin It on Pinterest

Share This