Eftirfarandi grein birtist á vf.is 18. maí 2018

Það er sumarið 1995, dögunum er eytt við gróðursetningar. Það er jú átak í gangi og unglingar bæjarins fengu plöntur í þúsunda tali til að gróðursetja við Seltjörn og meðfram flugvallargirðingunni. Þetta var sko ekki lítil útgerð! Andrés, fræg hetja úr landsbyggðarhljómsveitinni SúEllen eða einhverri álíka var verkstjóri.

Síðan spurðist ekki meira til þessa fræga gróðursetningarátaks. Við unglingarnir fórum í FS eða tókum upp aðra iðju og trén hófu sína lífsbaráttu.

Nú, rúmlega 20 árum síðar, sést árangur átaksins berlega – þó svo lítið sem ekkert hafi verið hugsað um það. Plönturnar í kringum Seltjörnina dafna vel og það er farið að bera á nokkrum sprotum við flugvallargirðinguna meðfram Reykjanesbrautinni. Hvernig ætli staðan væri í dag ef það hefði verið unnið markvisst að því að rækta upp svæðið?

Það er vel hægt að rækta upp í Reykjanesbæ. B-listinn mun beita sér fyrir því að lagt verði upp í stórátak í ræktun bæjarins.

Byggjum upp öflugt skjólbelti austan megin við Reykjanesbrautina, frá Grænás og upp að Rósaselstjörnum. Síðan höldum við áfram og ræktum stórt og skjólgott útivistarsvæði sem tengir bæjarhlutana saman sem og eldri skógræktarsvæði. Byggjum upp göngustígakerfi, reiðleiðir, hundagerði, leiksvæði og stórbætum umhverfið okkar með umfangsmiklum trjágróðri. Með því veitum við byggðinni skjól, kolefnisjöfnum mengun frá flugumferð og eflum lýðheilsu með bættum útivistarmöguleikum bæjarbúa.

Það er hagsmunamál stærstu aðila á flugvellinum að lágmarka umhverfisáhrif hans og starfseminnar sem honum fylgir. Það er því eðlilegt að leita eftir samstarfi við þá aðila um þetta verkefni.

Til framtíðar skilar þetta okkur stórskemmtilegu útvistarsvæði, bættu umhverfi, störfum við ræktun og umhirðu og síðast en ekki síst skemmtilegra mannlífi í okkar eigin skógi.

Byrjum í dag og ræktum upp Reykjanesbæ því við getum gert það.

Bjarni Páll Tryggvason,
skipar fimmta sæti á framboðslista x-B í Reykjanesbæ.

Pin It on Pinterest

Share This