Skipulags-, umhverfis- og samgöngumál

 
Mikið hefur vantað upp á að skipulags-, umhverfis- og samgöngumál séu í nægilega góðum farvegi í Reykjanesbæ. Þessi málaflokkur hefur áhrif á svo marga aðra, svo sem heilbrigði íbúa og lýðheilsu og þátttöku barnanna okkar í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Við getum gert mun betur!

Bindandi íbúakosning um Kísilverið í Helguvík – valdið til íbúa

 

B-listinn hafnar mengandi stóriðju í Helguvík.

B-listinn í Reykjanesbæ er grænn flokkur. Stóriðja sem hefur mengun í för með sér er ekki æskileg nálægt íbúabyggð.

B-listinn er flokkur atvinnuuppbyggingar en leita þarf leiða til þess að sú uppbygging sé í sátt við umhverfið og hafi ekki skaðlegar afleiðingar fyrir heilsu manna og dýra. Sú sorglega saga sem einkennir starfsemi Sameinaðs Sílikons í Helguvík er viðvörun til okkar allra um að gera betur. Eftirlitsstofnanir, bæjarfélagið og fjárfestar gerðu röð mistaka sem skilja nú eftir sig djúp spor sem enn sér ekki fyrir endann á.

Umhverfismál skipta okkur öll máli og ákvarðanir um verksmiðjurekstur þarf að taka með hag allra að leiðarljósi.

B-listinn telur að bera þurfi stórar ákvarðanir sem þessar undir íbúa og styður því bindandi íbúakosningu um breytingu á deiliskipulagi undir stóriðju United Silicon í Helguvík.

B-listinn vill leita leiða til þess að rifta samningum við kísilfélagið Thorsil þar sem ákvæði ívilnunarsamninga hefur ekki gengið eftir og óvissa ríkir um umhverfisáhrif af slíkri starfsemi.

Reykjanesbrautin í fyrsta sæti

B-listinn vill þrýsta á samgönguyfirvöld að flýta nauðsynlegu viðhaldi á Reykjanesbraut.

Hjólför vegarins skapa nú stórkostlega slysahættu fyrir vegfarendur.

Klára þarf tvöföldun vegarins sem fyrst til þess að tryggja umferðaröryggi.

Flest allir ferðamenn sem koma til Íslands fara um Reykjanesbraut. Því er ljóst að þetta er því ekki aðeins hagsmunamál Reykjanesbæjar heldur allra þeirra sem um brautina fara.

Reykjanesbær innleiði kolefnisjöfnun

Það er á ábyrgð okkar allra að sporna við hnattrænni hlýnun og sveitarfélagið á að ganga fram með góðu fordæmi á því sviði.

Kolefnisjöfnun gengur út á að planta trjám eða plöntum á svæðum sem við á, með það að markmiði sem draga úr koltvíoxíðmengun af notkun farartækja.

Markmið um kolefnisjöfnun er í takt við áherslur B-listans í umhverfismálum, gróðursetningu og fegrun bæjarins.

Gjaldskyldu í bílastæði í Reykjanesbæ fyrir ferðamenn og bílaleigur

Borið hefur á því að innlendir ferðamenn skilji bíla sína eftir í bílastæðum í bæjarfélaginu þegar þeir ferðast úr landi. Við þessu þarf að bregðast.

B-listinn vill skoða stofnun bílastæðasjóðs sem hefur það að markmiði að tryggja bílastæði fyrir almenning og vinna að skýrri stefnumörkun um vistvænar samgöngur.

Nokkuð hefur borið á því að bílaleigur þurfi aðstöðu fyrir ökutæki sem ekki eru í notkun t.d. á veturna. Bílastæðasjóður mun hafa það hlutverk að samræma og skipuleggja svæði fyrir slík not.

Bæjarbúar munu fá íbúakort og greiða því ekki í bílastæði á vegum bæjarins.

Bættar almenningssamgöngur

Í jafn öflugu bæjarfélagi og Reykjanesbæ þurfa almenningssamgöngur að vera framúrskarandi.

B-listinn mun leita leiða til að betrumbæta þjónustu strætó á þeim tímum sem börn og unglingar sækja íþrótta- og tómstundastarf.

B-listinn vill að í ákveðnum leiðarkerfum innanbæjarstrætó verði stoppistöð við flugstöðina svo ferðamönnum gefist tækifæri til þess að heimsækja bæinn á hagkvæmari og vitsvænni hátt.

Ræktum upp Reykjanesbæ

B-listinn vil hefja stórsókn í gróðursetningu í bæjarfélaginu.

Markmiðið er að kolefnisjafna mengun frá flugumferð og bæta lýðheilsu með bættum útivistarmöguleikum bæjarbúa.

Tré skila skjólsælli byggð, nýtast sem náttúrulegur vindbrjótur og bæta hljóðvist frá Keflavíkurflugvelli og Reykjanesbraut. Störf skapast við ræktun og umhirðu trjáa en við góðar aðstæður ætti grunnkostnaður við skógrækt ekki að vera hærri en 300.000 krónur á hektara.

Um langtímaverkefni er að ræða þar sem fjármögnun þarf að koma frá ríki í formi skógræktarátaks. Hægt er að leita samstarfs við fyrirtæki á Keflavíkurflugvelli um verkefnið auk íbúa og opinberra aðila eins og Skógræktarfélag Íslands.

Bætt aðstaða til útivistar í nærumhverfinu

B-listinn vill efla nýtingu gamalla leikvalla sem margir hverjir bjóða uppá mikil tækifæri til útivistar og samveru. Leikvellir eru oft staðsettir inni í miðjum íbúahverfum en sumum þeirra hefur nánast ekkert verið haldið við og þarf að bæta þar úr á næstu árum.

B-listinn vill endurnýta þessi svæði, koma upp útigrillum og leiktækjum eins og aparólum, svo eitthvað sé nefnt.

Einnig vill B-listinn nýta tæknina og setja upp eftirlitsmyndavélar við útivistarsvæði þar sem börn eru að leik. Eftirlit dregur úr líkum á skemmdarverkum og eykur öryggi barna.

Kalka: efling umhverfisvitundar varðandi flokkun heimilissorps

Um langt skeið hefur samvinna í sorpmálum verið skoðuð með samlegðaráhrif og þróun í málaflokknum að leiðarljósi. Fyrir liggur að Kalka er nú fullnýtt og vinna þarf langtíma stefnumótun á sviði sorpmála fyrir Suðurnesin í samræmi við kröfur og lög.

B-listinn styður ákvörðun Kölku um sorpflokkun.

B-listinn telur þó að efla þurfi umhverfisvitund og fræðslu til bæjarbúa vegna starfsemi sorpbrennslunnar, og ávinning af flokkun og endurvinnslu fyrir umhverfið og framtíðina.

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This