3. Halldóra Fríða ÞorvaldsdóttirEftirfarandi grein eftir Halldóru Fríðu, sem skipar 3. sæti listans, birtist í Víkurfréttum fimmtudaginn 10. maí:

Í ört stækkandi sveitarfélagi er mjög eðlilegt að ákveðnir vaxtaverkir komi fram í grunnþjónustu. Í Reykjanesbæ má sennilega segja að staðan sé sérstök. Íbúum hefur fjölgað hratt sem hefur reynst ákveðin áskorun. Það er afskaplega gleðilegt að sjá hve margir vilja búa í sveitarfélagi sem hefur verið leiðandi á svo mörgum sviðum.

Sveitarfélög víðs vegar um landið hafa til að mynda sótt í reynslu okkar í menntamálum en þar höfum við verið í fararbroddi. Leik- og grunnskólarnir okkar eru eftirtektarverðir. Þar hafa metnaðarfullir kennarar, nemendur og foreldrar lagst á eitt við að undirbúa börnin okkar sem best fyrir framtíðina. Við erum með nýja leik- og grunnskóla í byggingu, erum að skoða mögulega stækkun núverandi skóla og svo eru fleiri skólar á teikniborðinu fyrir þau hverfi sem eru í hraðri uppbyggingu.

Á sama tíma heldur meðalaldur fagmenntaðra kennara í leik- og grunnskólum áfram að hækka og ljóst er að á næstu árum mun hópur reynslumikilla kennara minnka við sig vinnu eða fara á eftirlaun. Við þurfum því bæði að manna nýja skóla og þær stöður sem losna. Þá skiptir máli fyrir okkur sem sveitarfélag í örum vexti að horfa fram á við.

Menntamálaráðherra er með tillögur í athugun sem komu frá samráðshópi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri þann 4. janúar sl. um aðgerðir til að auka nýliðun meðal kennara. Þær snúa m.a. að styrkjum til kennaranáms, að koma eigi á launuðu starfsnámi í meistaranáminu og að byggja þurfi upp jákvæða ímynd kennarastarfsins. Ef þessar hugmyndir ná fram að ganga gæti umsóknum í kennaranám á öllum skólastigum fjölgað.

B-listinn í Reykjanesbæ vill ganga enn lengra og bjóða starfandi leik- og grunnskólakennurum sóknarsamning til fjögurra ára. Við viljum ennfremur leita leiða til að styðja við og hvetja leiðbeinendur sem eru í námi í leik- og grunnskólunum okkar. Við viljum að leiðbeinendur hafi áfram tækifæri til að sækja staðlotur án launaskerðingar. Við sjáum einnig fyrir okkur möguleika á samkomulagi um að meta námsframvindu til launahækkunar meðan á námi stendur.

Umfram allt viljum við að allir viti hvað kennarastarfið er gefandi starf og hvaða gleði það veitir kennaranum að sjá nemendur ná markmiðum sínum og gleðjast með þeim yfir öllum sigrunum – stórum sem smáum.

Einhver þarf að taka af skarið og tryggja jákvæða umræðu um starf kennara og að fá fleira frábært fólk til starfa í skólunum okkar – við getum gert það!

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, kennsluráðgjafi

 

 

 

Pin It on Pinterest

Share This