Stjórnsýslan okkar

 
Stjórnsýslan er lykilatriði til árangurs á öllum sviðum. Þar hefur margt gott verið gert, en við getum gert enn betur. B-listinn vill sérstaklega sjá meira samtal við bæjarbúa, meira gegnsæi og meiri samvinnu.

Því að við vitum að saman getum við gert það!

 

Hverfaráð í Reykjanesbæ – góð ráð í hverju hverfi

 

Aukin þátttaka íbúa í lýðræðislegu ferli skapar betra og sterkara samfélag.

B-listinn telur að setja eigi á laggirnar hverfaráð í öllum hverfum bæjarins til þess að tengja betur saman þarfir íbúa og stjórnsýslu.

Hverfaráð yrðu skipuð fyrir öll hverfi bæjarins til tveggja ára í senn. Hverfaráðin yrðu mikilvægur vettvangur fyrir bæjarbúa til að hafa meiri áhrif á sitt nærumhverfi. Meðal verkefna hverfaráða væru skipulagsmál, félagsstarf og framkvæmdir. Fundargerðir ráðanna yrðu birtar á vef Reykjanesbæjar og myndu þau funda fjórum sinnum á ári.

Betri fundargerðir og meira upplýsingaflæði

 

B-listinn telur að efla megi upplýsingaflæði bæjarins til íbúa með betri kynningu á fundargerðum nefnda og ráða.

Lagt er til að öll erindi sem berast þeim ættu að birtast sem viðhengi við fundargerðir.

Íbúum á að gefast kostur á að skrá sig á tölvupóstlista og fá mikilvægar upplýsingar frá bænum sendar reglulega.

Leiðréttingin á Ásbrú – fulltrúi Reykjanesbæjar í stjórn Kadeco

 

B-listinn telur óeðlilegt að ríkið hagnist á þeim óförum sem yfir Suðurnesin dundu við brotthvarf hersins.

Leiðrétta þarf þá stöðu með því að Reykjanesbær komi inn í Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, sem hluthafi og gæti þannig framtíðarhagsmuna íbúa Reykjanesbæjar eins og skynsamlegt hefði verið frá upphafi.

Nú liggur fyrir að hagnaður ríkisins af sölu eigna á vallarsvæðinu nemur um 11 milljörðum króna. Ljóst er að umtalsverðir fjármunir eru enn til staðar í félaginu auk þess sem félagið hefur tekjur af lóðaleigu sem nemur um 130 milljónum á ári.

B-listinn vill að leiðréttingin nái fram að ganga og þverpólitísk sátt náist við ríkið um að þessir fjármunir standi straum af fjármögnun innviða á svæðinu.

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This