Velferðar- og heilbrigðismál

 
Allt sem við gerum í öðrum málaflokkum styður við velferð okkar og hamingju. Þó eru ýmis mál sem snúa beinlínis að velferð og heilbrigði íbúanna og þau eru okkur gríðarlega mikilvæg.

Líkamlegt og andlegt heilbrigði er undirstaða hamingjuríks lífs og við megum ekki gleyma til hvers allt þetta er: svo við getum notið lífsins með þeim sem okkur þykir vænt um.

Saman þurfum við að tryggja velferð og heilbrigði íbúa Reykjanesbæjar. Við getum gert það!

Stytting vinnuvikunnar – vinna og velferð

Tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar hefur gefið góða raun. Rannsóknir sýna að styttri vinnuvika getur leitt til aukinnar ánægju í starfi, meiri afkasta, betri heilsu og þar með betri lífsgæða. Velferðarráðuneytið hefur stýrt sambærilegu verkefni af hálfu hins opinbera með góðum árangri.

B-listinn vill setja vinnu í gang til þess að stuðla að styttingu vinnuvikunnar eða innleiða sveigjanlegri vinnutíma hjá Reykjanesbæ án launaskerðingar.

Geðheilbrigðismál tekin föstum tökum

B-listinn í Reykjanesbæ vill setja geðheilbrigðismál á oddinn.

Rannsóknir sýna að líðan barna í skólum landsins fer versnandi. Reykjanesbær þarf að bregðast við þeim tíðindum með samvinnu við skólastjórnendur, kennara og foreldra. Við eigum alltaf að setja börnin í fyrsta sæti.

Reykjanesbær þarf að vinna með stjórnvöldum til þess að efla geðheilbrigðisteymi heilsugæslunnar og í senn festa í sessi starfsemi geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja, Björgina.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur gert samning við fræðslusvið Reykjanesbæjar um að veita nemendum skólans sálfræðiþjónustu þeim að kostnaðarlausu. Þjónustan hefur mælst vel fyrir og er gott dæmi um árangursríkt samstarf stofnana á svæðinu.

Heilsugæsla Reykjaness – því heilsan skiptir mestu máli

Fullnægjandi heilsugæsla í heimabyggð er stóra málið!

Það hefur ekki farið framhjá neinum að heilsugæslan á Suðurnesjum (HSS) nær ekki að sinna hlutverki sínu. Úttekt embættis landlæknis á starfseminni leiddi í ljós dökka mynd sem ekki verður við unað. Þjónusta heimilislækna er takmörkuð en áherslan á hana hefur verið mikið keppikefli á höfuðborgarsvæðinu.

Reykjanesbær mun, ef fram heldur sem horfir, taka fram úr Akureyrarbæ sem fjórða stærsta sveitarfélag landsins. Aukin þörf fyrir grunnþjónustu fylgir í kjölfarið og er heilsugæslan þar engin undantekning.

 

Góð heilsugæsla einkennist fyrst og fremst af því að vera aðgengileg. Hún gerir samfellda þjónustu mögulega og á að geta fengist við breitt svið heilsufarslegra vandamála. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er grundvallarréttur hvers einstaklings en markmið með rekstri heilsugæslustöðva er að tryggja öllum landsmönnum fullnægjandi heilsugæslu í heimabyggð.

Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu og á stór hluti íbúa að geta fengið þar fullnægjandi og viðeigandi heilbrigðisþjónustu sé starfsemin í samræmi við kröfur nútímans.

Heilsugæslan tengist náið velferðarþjónustunni en skólahjúkrun, ungbarnavernd og heimahjúkrun heyra undir starfsemi HSS á meðan Reykjanesbær sinnir heimaþjónustu, forvörnum, þjónustu við fatlaða og dagdvöl fyrir aldraða svo eitthvað sé nefnt. Samkvæmt reglugerð skal heilsugæslan veita ráðgjöf og fræðslu um heilsuvernd og forvarnir og því má leiða líkum að því að veruleg samlegðaráhrif gætu náðst með sameiginlegum rekstri.

B-listinn vill skoða forsendur fyrir því að efla heilsugæsluna með því að bæjarfélagið taki yfir rekstur og stjórnun hennar með þjónustusamningi við velferðarráðuneytið.

Akureyrarbær rak heilsugæsluna á Akureyri frá árinu 1997 til 2012 en á þeim tíma heyrði starfsemin undir velferðarsvið bæjarins. Heilsugæslan rann inn í Heilbrigðisstofnun Norðurlands í kjölfarið þegar heilbrigðisráðuneytið gerði breytingar á heilbrigðisumdæmum. Því er ljóst að fordæmi eru fyrir sambærilegu rekstrarfyrirkomulagi. Sýnir úttekt að slíkt fyrirkomulag dró úr þörf fyrir hjúkrunar-og dvalarrými og leiddi af sér ýmis velferðarverkefni s.s. heilsueflandi heimsóknir til aldraðra, fagráð um fjölskylduvernd og ráðgjöf og sérhæfða heimaþjónustu við fatlaða.

Náist hagstæðir samningar við ríkið gætu skapast forsendur fyrir heildstæðari þjónustu sem líkleg væri til þess að fækka innlögnum, efla tengsl heilsugæslunnar við samfélagið, auka þjónustustig og efla bæði geðheilbrigðisþjónustu og lýðheilsu íbúa svæðisins.

Heilsugæsla fyrir alla.

Við getum gert það!

Skipa lýðheilsunefnd Reykjanesbæjar og festa heilsueflingu eldri borgara í sessi

Reykjanesbær er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélag. Markmið verkefnisins er að heilsa og líðan einstaklinga sé í fyrirrúmi í stefnumótun á öllum sviðum bæjarins. Stöðug áhersla er lögð á að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi sem og draga úr tíðni og afleiðingum lífstílstengdra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi.

Áætlað er að 70-80% af kostnaði til heilbrigðismála í Evrópu megi rekja til langvinnra lífstílstengdra sjúkdóma. Þróa og staðfæra þarf svokallað lýðheilsumat til þess að meta hugsanleg bein og óbein áhrif tiltekinna stjórnvaldsaðgerða á lýðheilsu.

Hugsa þarf almenningssamgöngur, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, félagslega þjónustu, forvarnir, öryggi, aðbúnað eldri borgara, skólasamfélagið, æskulýðs- og íþróttastarf auk hönnunar og skipulags útfrá þessum forsendum.

Hamingjustuðull íbúa á Suðurnesjum hefur mælst hár í lýðheilsuvísum Embættis landlæknis á meðan virkur ferðamáti til og frá vinnu eða skóla fullorðinna er helmingi lægri en á landsvísu. Streita fullorðinna á svæðinu mælist yfir meðaltali og fleiri íbúar meta líkamlega og andlega heilsu sína verri hér en annar staðar á landinu. Við þessu þarf að bregðast með því að móta og innleiða lýðheilsustefnu fyrir Reykjanesbæ og aðgerðaráætlun í kjölfar hennar.

Tryggja þarf stuðning og fjármagn og efla samvinnu sveitarfélaga á Suðurnesjum á þessu sviði. Fjölga þarf heilsueflandi skólum og festa í sessi heilsueflingu eldri borgara en þátttaka þeirra í rannsóknarverkefni Dr. Janusar Guðlaugssonar hefur gefið góða raun.

Reykjanesbær á að hafa frumkvæði að því að ráðinn verði lýðheilsufræðingur á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem styður við heilsueflandi samfélög á Suðurnesjum. Með ráðningunni má samþætta verkefni, nýta sérþekkingu og efla áherslu á lýðheilsu á svæðinu í heild.

Reykjanesbær verði Barnvænt sveitarfélag UNICEF

 

UNICEF á Íslandi og umboðsmaður barna kynntu í fyrra verkefnið Barnvæn sveitarfélög sem er líkan fyrir innleiðingu Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. Mörg hundruð bæjarfélög um allan heim hafa innleitt verkefnið undir heitinu „Child Friendly Cities“.

Verkefnið gengur út á það að vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og nota sáttmálann sem viðmið í starfi sínu.

Markmið B-listans er að Barnasáttmálinn verði nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu þar sem tekið er tilliti til allra barna, þvert á öll svið bæjarfélagsins.

Stækkun Nesvalla

Fyrir liggur að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum því er nauðsynlegt að byggja við Nesvelli til þess að koma til móts við aukna þörf fyrir dvalarrými fyrir aldraða. Mikilvægt er að öldruð hjón geti búið saman þó svo umönnunarþarfir þeirra séu ólíkar á hverjum tíma.

Búsetuúrræði fyrir fatlaða íbúa

B-listinn vill tryggja búsetuúrræði fyrir fatlaða einstaklinga og gera þeim kleift að búa við aðstæður sem taka mið af þeirra óskum, þörfum og getu. Sjálfstæði fatlaðra íbúa þarf að vera í fyrirrúmi. Standa þarf vörð um lífsgæði þess hóps eftir fremsta megni.

Samræming kostnaðar við dagvistun

Ljóst er að kostnaður við dagvistun ungra barna er hár, sér í lagi þegar foreldrar hafa um skeið verið á lægri tekjum vegna fæðingarorlofs.

Samræma ber þá upphæð sem foreldrar greiða fyrir dagvistun hvort sem um er að ræða dagvistun hjá dagmæðrum eða í leikskóla, það er sanngirnismál. Ekki hafa allir sama bakland og því þarf að leita leiða til þess að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistunar.

Markmið með afslætti af leikskólagjöldum er að koma til móts við efnaminni foreldra í samfélaginu. Í dag er sjálfkrafa veittur afsláttur af dagvistunargjöldum fyrir einstæða foreldra eða foreldra þar sem annar aðilinn er í fullu námi og ekkert er greitt fyrir þriðja og fjórða barn á leikskóla. Fjárhagsleg staða einstæðra foreldra er misjöfn og sama gildir um fjölskyldufólk almennt. Því er eðlilegra að afslátturinn sé tekjutengdur og nýtist þannig best þeim sem mest þurfa á stuðningi að halda.

Fagleg barnavernd

Mikilvægt er að barnaverndarnefndir séu skipaðar á faglegum grundvelli og Reykjanesbær skoði innleiðingu Herning-aðferðarinnar við vinnslu barnaverndarmála.

Herning-aðferðin er kennd við sveitarfélag í Danmörku þar sem verklagið var innleitt og hefur gefið góða raun. Verklagið gengur út á að samþætta stuðning hins opinbera í barnaverndarmálum, flýta meðferð og lækka kostnað.

Skaðaminnkun

Skaðaminnkun er verkefni sem hefur það markmið að ná til jaðarhópa í samfélaginu eins og heimilislausra og þeirra sem ánetjast fíkniefnum. Því miður fer ungu fólki í harðri neyslu fjölgandi á Suðurnesjum.

Verkefnið Frú Ragnheiður hefur verið starfrækt um árabil í Reykjavík og gefist vel. Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll þar sem starfrækt er annars vegar hjúkrunarmóttaka og hinsvegar nálaskiptaþjónusta og skaðaminnkandi ráðgjöf.

Mikilvægt er að hafa slíkt úrræði á borð við Frú Ragnheiði til staðar hér á svæðinu og því mun B-listinn leita leiða til að innleiða slíka ferla í Reykjanesbæ.

Rannsóknir varðandi lífaldur kvenna á Reykjanesi

Það er áhyggjuefni að lífaldur kvenna á Reykjanesi skuli vera marktækt styttri en annars staðar á landinu. B-listinn vill að ástæður þessarar útkomu séu kannaðar af fagaðilum á vegum heilbrigðsyfirvalda. Brýnt er að rannsaka hvaða ástæður búa að baki svo hægt sé að bregðast við með aðgerðum.

Vertu í bandi!

 

Hafnargata 62, 230 Reykjanesbæ

Láttu í þér heyra!

Pin It on Pinterest

Share This