Framsóknarflokkurinn í Reykjanesbæ kemur tvíefldur til leiks til bæjarstjórnarkosninga 2018. Nýliðun og endurnýjun í flokknum hefur verið mikil og nýtt blóð skipar efstu sæti listans í framboðinu. Nýtt og ferskt fólk fyrir nýja tíma og nýja pólitík. Fólk sem vill sjá ný og faglegri vinnubrögð við stjórnun bæjarins okkar.

Rauði þráðurinn í öllu sem Jóhann Friðrik, Díana, Halldóra Fríða, Trausti og aðrir frambjóðendur listans hafa lagt fram er mikilvægi þess að bæjarstjórnarfulltrúar vinni fyrir alla bæjarbúa. Að hagsmundir heildarinnar séu leiðarljósið, ekki sérhagsmunir, en mörgum hefur þótt það víða hafa viðgengist. Við getum unnið fyrir okkur öll.

Það er okkur einnig mikilvægt vera í góðu sambandi við bæjarbúa, halda samtalinu opnu og að vinna saman. Það má að mörgu leyti segja að Framsókn sé nýtt framboð í Reykjanesbæ, þar sem endurnýjunin í efstu sætum listans er algjör og það er ætlun okkar að hverfa ekki af sjónarsviðinu eftir kosningar, til þess bara að birtast korter í næstu kosningar. Við erum nú þegar byrjuð að leggja línurnar að því hvernig við ætlum að halda samtalinu við bæjarbúa áfram og ætlum okkur að vera virk og sýnilegt alltaf, ekki bara rétt áður en beðið er um atkvæði fólks. Við getum haldið áfram að tala saman.

Gegnsæi og upplýsingagjöf er okkur mikilvæg. Okkur hefur þótt skorta á slíkt síðastliðin ár og þrátt fyrir birtingar á gögnum og öðru, þá hafa þau gögn oft ekki sagt mikið. Við viljum sjá faglegri og metnaðarfylltri vinnubrögð þegar kemur að því að opna stjórnsýsluna og ætlum okkur að vinna á þeim grundvelli. Við getum verið opin, heiðarleg og gagnsæ.

Framtíðarhugsun er mikilvæg. Allt of lengi hefur skammtímahugsun ríkt í bæjarstjórnarmálum í Reykjanesbæ og hlutirnir ekki hugsaðir mikið lengra en til næstu kosninga, ef þá svo langt. Við viljum tileinka okkur góð vinnubrögð í stefnumótun og setja fram framtíðarsýn til lengri tíma, svo sem 10-20 ára, svo vinna megi heildstætt að því að bæta bæinn okkar – ekki bara með því að setja plástra hér og þar. Við getum skipulagt til framtíðar.

Það er okkur mikilvægt að fólk og fyrirtæki vilji vera í Reykjanesbæ. Því miður heyrist sumt unga fólkið okkar segja að hér sé ekkert fyrir það og eru ekki bjartsýn á framtíðina. Við vitum að hér er fullt af tækifærum og að við getum verið eftirsóknarverður búsetukostur, ekki bara vegna þess að hér sé viðráðanlegra húsnæðisverð heldur en á höfuðborgarsvæðinu, heldur af því að hér er gaman og gott að búa. Við þurfum að efla það sem við höfum, grípa tækifæri, en síðast en ekki síst sína fólkinu okkar hvað við höfum og gera það ánægt og stolt af því að búa í Reykjanesbæ. Við getum verið sá kostur sem fólk velur framyfir aðra því það vilji vera hér.

Það sama á við um fyrirtæki. Hér eru gríðarlega mörg ónýtt tækifæri og hægt að gefa enn betur í. Við getum gert enn betur í atvinnulífinu í Reykjanesbæ.

Síðast en ekki síst þá höfum við gleðina að leiðarljósi. Til hvers er þetta allt saman ef ekki til að geta notið lífsins og haft gaman af því? Við getum haft gaman.

Við getum gert það!

F.h. xB í Reykjanesbæ
Jóhann Friðrik Friðriksson, oddviti

Pin It on Pinterest

Share This